Breyttur samningur ekki í boði

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í dag. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, funduðu í dag um fyrirhugaða útgöngu Breta úr sambandinu og óskir breskra stjórnvalda um breytingar á útgöngusamningi þar á milli sem neðri deild breska þingsins hafnaði fyrr á þessu ári.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC  að May og Juncker hafi lýst fundi þeirra sem erfiðum en uppbyggilegum í sameiginlegri yfirlýsingu. Juncker lýsti því hins vegar yfir að útgöngusamningnum yrði ekki breytt líkt og May hefði óskað eftir. Hins vegar væri mögulegt að bæta við texta í yfirlýsingu um framtíðartengsl Bretlands og Evrópusambandsins sem fylgdi samningnum en yfirlýsingin er ekki lagalega bindandi.

Leiðtogarnir tveir ákváðu að hittast aftur fyrir lok febrúar til þess að ræða málið áfram. Fram að því er gert ráð fyrir að samninganefndir Bretlands og Evrópusambandsins haldi áfram að ræðast við og reyna að finna leið til þess að tryggja sem breiðastan stuðning í breska þinginu og virða um leið viðmiðunarreglur ráðherraráðs sambandsins.

Þá munu útgönguráðherra Bretlands, Steve Barcley, og aðalsamningamaður Evrópusambandsins, Michel Barnier, ræðast við á fundi í Strasbourg á mánudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert