Fundi slitið án samkomulags

Kim Jong-un og Donald Trump í Hanoi í morgun.
Kim Jong-un og Donald Trump í Hanoi í morgun. AFP

Leiðtogafundi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, hefur verið slitið fyrr en áætlað var í Hanoi í Víetnam. Samkvæmt tilkynningu frá Hvíta húsinu náðist ekkert samkomulag á fundinum. Aftur á móti munu fulltrúar leiðtoganna ræða áfram saman í framtíðinni. 

Vonir höfðu verið uppi um að leiðtogarnir myndu tilkynna um samkomulag um afvæðingu kjarnorkuvopna Norður-Kóreu á fundinum sem er sá annar í röðinni á aðeins átta mánuðum. 

Fulltrúar Hvíta hússins hafa neitað að upplýsa frekar um breytta dagskrá annað en að ekkert verði að sameiginlegum morgunverði þeirra og að Trump myndi einn halda blaðamannafund núna klukkan 7.

Þeir áttu góða og uppbyggilega fundi og ræddu ýmis málefni, svo sem afkjarnorkuvopnavæðingu og efnahagsleg málefni, segir í yfirlýsingu upplýsingafulltrúa bandaríska forsetaembættisins, Sarah Sanders.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ræddi við fjölmiðla eftir að fundi …
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ræddi við fjölmiðla eftir að fundi hans og leiðtoga Norður-Kóreu var slitið í morgun. AFP

Uppfært klukkan 7:17

Á blaðamannafundinum sagði Trump að það hafi verið sameiginleg ákvörðun hans og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að skrifa ekki undir neitt samkomulag við Norður-Kóreu á þessari stundu. Mikill árangur hafi náðst á fundinum og viðræðurnar hafi verið góðar.

Trump bað síðan Pompeo um að fara yfir þetta með blaðamönnum og sagði Pompeo að hann hafi óskað sér að þeir hefðu getað náð lengra en það hafi ekki verið hægt. Vilji hafi verið fyrir því hjá báðum leiðtogunum en því miður hafi slíkt ekki verið mögulegt á þessari stundu.

Donald Trump og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo.
Donald Trump og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo. AFP

„Við báðum hann um að gera það en hann var ekki reiðubúinn til þess,“ segir Trump og bætir við að Norður-Kórea hafi verið reiðubúin til þess að ganga að kröfum Bandaríkjanna að hluta en ekki öllu leyti. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvaða svæði Norður-Kórea var reiðubúin til þess að afkjarnorkuvopnavæða, en ekki önnur. Er talið að Norður-Kórea hefi ekki viljað fallast á að loka Yongbyon-kjarnorkurannsóknarstöðinni.

„Þeir vildu að öllum viðskiptaþvingunum yrði aflétt en við gátum ekki gert það,“ sagði Trump. 

„Ég vildi óska þess að við hefðum náð lengra en ég er enn bjartsýnn,“ sagði Mike Pompeo við fréttamenn og segist vonast til þess að svo verði á næstu vikum.

Spurður út í hvort aðstæður hafi verið þær sömu og á leiðtogafundi Ronald Reagan, forseta Bandaríkjanna, og Mikhaíl Gorbatsjof, forseta Sovétríkjanna, það er hvort þetta hafi verið einhliða ákvörðun hans (Trump) að slíta viðræðunum líkt og hjá Reagan sagði Trump að hann vildi óska þess að hann gæti sagt það en yrði að svara því neitandi.

Trump segir að hann telji að þeir Kim séu orðnir góðir vinir. Það sem hafi skipt mestu séu viðskiptaþvinganir og að þeim yrði aflétt að fullu. Gáfulegra sé að hætta viðræðum og slíta fundi heldur en að skrifa undir samkomulag í flýti. Hann segir að Kim hafi heitið því að ekki verði um kjarnorkuvopnatilraunir að ræða af hálfu Norður-Kóreu. Hann trúi orðum Kim og að hann standi við loforð sitt. 

Á blaðamannafundinum var Trump spurður út í vitnisburð fyrrverandi lögmanns hans, Michael Cohen. Að sögn Trump hafði hann haft öðrum hnöppum að hneppa undanfarinn sólarhring en að fylgjast grannt með því sem Cohen hafði að segja. En auðvitað hafi verið hræðilegt að hlýða á alla þessa lygi á miðjum leiðtogafundi í Hanoi. Hann átti sig ekki á hvers vegna vitnaleiðslurnar þurftu að fara fram í gær og hvers vegna ekki var beðið með þær fram í næstu viku.

„Hann lýgur mikið,“ sagði Trump um Cohen. Hann segir að ekkert hafi komið fram í vitnisburði Cohens sem sýni fram á forsetaframboð hans hafi átt samstarf við Rússa fyrir forsetakosningarnar 2016. 

Trump hrósaði bæði Kínverjum og Rússum fyrir þeirra hlut í viðræðum milli ríkjanna tveggja og að Kína hafi ítrekað verið rætt á fundi þeirra. 

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert