Mesta krísa Justin Trudeau til þessa

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er í vandræðum og senn líður …
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er í vandræðum og senn líður að kosningum. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er sakaður um spillingu af samflokkskonu sinni, Jody Wilson-Raybould. Hann er sagður hafa reynt að hafa áhrif á hvort fyrirtæki nokkuð þyrfti að sæta skattrannsókn. Afsagnar hans hefur verið krafist.

SNC-Lavalin er 50.000 starfsmanna iðnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Quebec. Wilson-Raybould, sem var á sínum tíma dómsmálaráðherra og ríkissaksóknari í ríkisstjórn Trudeau, sakar hann nú um að hafa þrýst á hana að draga til baka lögsókn á hendur SNC-Lavalin, sem tengdist meintum tugmilljóna dollara mútum fyrirtækisins til lýbískra yfirvalda í valdatíð Gaddafi vegna viðskiptahagsmuna.

Wilson-Raybould vill meina að hún hafi orðið fyrir pólitískum þrýstingi þess efnis að hún skyldi láta málið falla niður og leyfa fyrirtækinu að semja utan réttarsalar. Umleitanir þessar sagði hún hafa varað frá september til desember haustið 2018, frá bæði Trudeau og öðrum í hans umboði. Hún segir að þrýstingurinn hafi stundum jaðrað við óbeinar hótanir.

Jody Wilson-Raybould, fyrrverandi dómsmálaráðherra Kanada, vitnaði um meinta spillingu forsætisráðherrans …
Jody Wilson-Raybould, fyrrverandi dómsmálaráðherra Kanada, vitnaði um meinta spillingu forsætisráðherrans fyrir þingnefnd á föstudag. AFP

Trudeau í vandræðum rétt fyrir kosningar

Trudeau vísar ásökunum á bug: „Ég og mitt fólk höfum alltaf hegðað okkur með viðeigandi og faglegum hætti. Ég er fullkomlega ósammála lýsingu fyrrverandi dómsmálaráðherra,“ sagði hann. „Við höfum staðið vörð um störf í Kanada. En alltaf af virðingu við kúnstarinnar reglur.“

Samkvæmt stjórnmálaskýrendum veit Trudeau vel að stuðningur við SNC-Lavalin er sterkur leikur fyrir kosningarnar fram undan, enda Quebec stjórnmálalega mikilvægt svæði. Það eru 8 mánuðir í þingkosningar í Kanada. 

Trudeau hefur verið forsætisráðherra síðan 2015. Hann hefur sjaldan þolað eins þungt pólitískt högg og nú, sagt er að þetta sé mesta krísa hans til þessa. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar kanadísku hefur krafist lögreglurannsóknar á málinu og sömuleiðis þess, að Trudeau segi umsvifalaust af sér.

Wilson-Raybould og Trudeau árið 2015.
Wilson-Raybould og Trudeau árið 2015. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert