Svartur nýnasistaleiðtogi á allra vörum

James Stern er nýr leiðtogi nýnasistasamtakanna NSM í Bandaríkjunum. Hann …
James Stern er nýr leiðtogi nýnasistasamtakanna NSM í Bandaríkjunum. Hann hyggst leysa þau upp. Ljósmynd/Facebook-síða James Stern

James Stern er 54 ára svartur Bandaríkjamaður. Í janúar varð hann leiðtogi einnar stærstu nýnasistahreyfingar Bandaríkjanna, NSM. Takmark hans er að gera út af við hana.

Að Stern væri orðinn leiðtogi Þjóðernissósíalistahreyfingarinnar fréttist ekki fyrr en núna fyrir helgi, þegar fréttir tóku að birtast um það í bandarískum miðlum. Á föstudaginn var Stern mættur í viðtöl til þess að tilkynna um áform sín sem forseti hreyfingarinnar um að greiða henni banahögg.

Hvernig verður svartur maður leiðtogi nýnasistahóps?

Ræturnar að þessari hallarbyltingu er að finna í fangelsi, þar sem Stern deildi klefa á sínum tíma með Edgar Ray Killen, gömlum framámanni í Ku Klux Klan. Þeir urðu á einhvern hátt trúnaðarvinir og er fram liðu stundir lék hann Killen grátt með því að leysa upp hans Klan-samtök.

Í gegnum venslin við Killen kynntist Stern svo Jeff nokkrum Schoep. Sá er fráfarandi formaður NSM. El País rekur atburðarásina skilmerkilega.

Jeff Schoep átti ekki sjö dagana sæla sem formaður samtakanna en liðsmenn þeirra voru bornir þungum sökum í kjölfar mótmæla kynþáttahatara í Charlottesville sumarið 2017. Hreyfingin stóð þannig ótraustum fótum og átti dómsmál yfir höfði sér. Stern mun hafa sannfært Schoep, sem hann vingaðist við undir fölsku flaggi, um að eina leið hreyfingarinnar til þess að koma ekki illa út úr dómsmálinu væri ef hann, Schoep, viki.

Meðlimir hreyfingarinnar voru orðnir gagnrýnir á veru hans í formannssætinu og smám saman tókst Stern að sannfæra Schoep um að hag félagsskaparins væri betur borgið ef hann léti embættið eftir. Í viðtali við fjölmiðla á föstudaginn harmaði Schoep örlög sín og sagði Stern hafa svikið sig: „Hann sannfærði mig um að eina leiðin til þess að verja liðsmenn okkar væri að láta hann fá formannsembættið,“ sagði hann.

Skjalfestur leiðtogi NSM

James Stern er skráður formaður samtakanna. Það hefur verið skjalfest síðan 15. janúar en kvisaðist ekki út fyrr en í síðustu viku. Að vonum nýtur hann ekki mikils stuðnings liðsmanna hreyfingarinnar en í krafti embættis síns fór hann til dómara og lagði fram játningu hreyfingarinnar á öllum ásökunum í garð hennar í tengslum við atburðina í Charlottesville.

Þegar réttarhöldum þar að lútandi lýkur stefnir Stern á að gera vef hreyfingarinnar að fræðsluvettvangi um það sem átti sér stað í helförinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert