Hundur gróf upp blásýruþjóf

Lögregluhundurinn Dolk, sem er þriggja ára gamall, gróf annan blásýruþjófanna …
Lögregluhundurinn Dolk, sem er þriggja ára gamall, gróf annan blásýruþjófanna upp úr moldargólfi í Gjerdrum og þurfti að láta tennur skipta. Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Leit lögreglunnar í Ósló að mönnum, sem stálu sendibifreið sem í var meðal annars geymt hylki með blásýru, lauk um helgina þegar lögreglan veitti bifreið, sem mennirnir óku, eftirför og náði að lokum að króa þá af í kjallara húss í Gjerdrum, skammt norðaustur af höfuðborginni.

Sendibílnum stálu mennirnir í Lørenskog 20. febrúar og hafði mikil leit að þeim, og kannski fyrst og fremst blásýrunni sem er bráðdrepandi efni sé það tekið inn, staðið yfir síðan, en ekki borið árangur fyrr en nú um helgina.

Á föstudagskvöldið gaf lögregla ökumanni silfurlitrar Audi-bifreiðar á E6-hraðbrautinni merki um að stöðva bifreiðina en hafði hann þann boðskap að engu og forðaði sér undan með ofsaakstri eftir að hafa bakkað á lögreglubifreiðina.

Það var svo á laugardaginn sem lögreglu bárust ábendingar frá almenningi um Audi-bifreiðina og tvo menn sem hefðu sést við hús í Gjerdrum.

Gróf annan mannanna upp úr moldargólfi

Fór lögregla á staðinn með liðsstyrk og hunda og réðst til inngöngu í húsið. Annar mannanna reyndi að koma sér undan á hlaupum og hafði lögregla fljótt hendur í hári hans en hinn hafði hreinlega grafið sig niður í moldargólf í kjallara hússins sem ekki er íbúðarhús heldur hlaða eða annars konar útihús.

Lögregluhundurinn Dolk lét þennan feluleik ekki leiða sig á villigötur heldur gróf manninn upp sem brást ókvæða við og sló til dýrsins sem beit hann á móti.

Var maðurinn svo handtekinn og færður undir læknishendur til að byrja með en í bifreið mannanna fann lögregla blásýruhylkið sem saknað var, en ekki var vitað, þegar til stóð að stöðva þá á föstudagskvöldið, að þeir tengdust því máli.

VG

NRK

Aftenposten

TV2

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert