Biden ber af sér ásakanir um koss

Lucy Flores og Joe Biden í aðdraganda kosninga 2014.
Lucy Flores og Joe Biden í aðdraganda kosninga 2014. AFP

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, segist aldrei hafa hagað sér með ósæmilegum hætti við konur. Lucy Flores, fyrr­ver­andi þingmaður flokks­ins og þáver­andi frambjóðandi til vara­rík­is­stjóraembættis Nevada-rík­is, kom fram í sjónvarpsviðtali á dögunum og sakaði hann um að hafa kysst sig stórum og löngum kossi aftan á háls á kosningafundi í Nevada fyrir fimm árum síðan. 

Flores segist hafa verið niðurlægð eftir atvikið sem átti sér stað rétt áður en hún steig á svið á fundinum. Telur hún að vegna þessa eigi Biden ekki að bjóða sig fram í forvalinu.

Samkvæmt könnunum er Biden efstur á blaði fyrir forval demókrata fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum árið 2020, jafnvel þó hann hafi ekki tilkynnt um framboð. 

„Á þeim mörgu árum sem ég hef verið í kosningabaráttu og í mínu opinbera lífi hef ég ótal sinnum tekið í hendur fólks, faðmað það, dáðst af því og stutt. Ég trúi því að ég hafi aldrei nokkurn sýnt af mér óviðeigandi hegðun,“ segir í tilkynningu Biden vegna málsins. „Hafi ég gert það, hlusta ég á slíkar ásakanir af virðingu, en eitthvað í þessa veru var þó aldrei ætlun mín.“

Flores svaraði tilkynningu Biden og sagðist ánægð með að hann væri tilbúinn að hlusta, en það breytti því ekki að hegðunin ætti að útiloka hann frá framboði í forvali demókrata.

„Auðvitað vil ég að hann breyti hegðun sinni. Ég vil að hann viðurkenni að þetta var rangt af honum. Ég vil meiri umræðu um ábyrgðarleysi stjórnmálamanna og tilvik þar sem konum er misboðið vegna áreitni eða enn alvarlegri brota,“ sagði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert