Þjóð sem þráir ljós í myrkrinu

Sólin að setjast yfir mykraðri höfðuðborg Venesúela í rafmagnsleysi í …
Sólin að setjast yfir mykraðri höfðuðborg Venesúela í rafmagnsleysi í mars. AFP

Þeir voru þegar að glíma við sögulegt efnahagshrun, stórlaskaða innviði og sérlega róstusama tíma í stjórnmálum. Og þá fór rafmagnið af. Í einu helsta olíuríki heims.

Venesúelamenn hafa upplifað miklar hremmingar síðustu misserin og þúsundir þeirra hafa yfirgefið landið. Forsetinn Nicolas Maduro er í hugum margra þeirra sem og fimmtíu annarra þjóðríkja ekki í raun og sann sá sem völdin hefur. Sá sem nú titlar sig forseta, Juan Guaido, og nýtur meðal annars stuðnings Bandaríkjastjórnar, getur vart tekið ákvarðanir sem slíkur á meðan óvissa ríkir.

Staða landsins var í hnút. Hún er nú orðin stærðarinnar flækja.

Kort af Venesúela. Til vinstri sést gervitunglamynd sem sýnir ljósin …
Kort af Venesúela. Til vinstri sést gervitunglamynd sem sýnir ljósin í landinu aðfaranótt 7. mars og sú til hægri aðfaranótt 8. mars, þegar rafmangsleysið er brostið á. Af Wikipedia

Þegar rafmagnið fór af og landið varð allt að því almyrkvað 7. mars, vöknuðu spurningarnar: Hvers vegna slær rafmagni í heilu landi út? Á hvers ábyrgð er það að koma því á aftur? Og hverjir eiga að sjá um viðgerðir þegar opinberir starfsmenn hafa margir hverjir ekki fengið greidd laun jafnvel mánuðum saman og mæta stopult ef nokkuð til vinnu?

Svörin eru misjöfn eftir því hver er til svara.

Samsæriskenningar fóru strax á flug. Maduro og félagar sögðu Bandaríkjamenn bera ábyrgð, um tölvuárás hafi verið að ræða, til þess eins að koma Maduro frá völdum en á kostnað almennra borgara. Engar sannanir hafa verið færðar fyrir þeim ásökunum.

Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og yfirlýstur forseti Venesúela.
Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og yfirlýstur forseti Venesúela. AFP

Hins vegar hefur verið sýnt fram á, m.a. með skoðun gervitunglamynda, að gróðureldar kviknuðu þennan dag við tengivirki sem dreifði raforku frá Guri-vatnsaflsvirkjuninni til um 80% Venesúelamanna. Þar sem kerfið var veikt, hafði ekki verið viðhaldið af sérfræðingum árum saman heldur hermönnum sem þekktu lítið til verka, hrundi það einfaldlega.

Rafmagnsleysið í byrjun mars náði til yfir 70% íbúa landsins í minnst átján af 23 ríkjum Venesúela. Á sumum svæðum varði það dögum saman og enn er rafmagnið ótryggt víða. Stundum loga ljósin, oftast aðeins í stutta stund. En  afleiðingarnar eru mun víðtækari en að birtuna þverri.

Rafmangslaust varð aftur í höfuðborginni Karakas 26. mars. Og svo …
Rafmangslaust varð aftur í höfuðborginni Karakas 26. mars. Og svo aftur nú í vikunni. Einnig stundum þar á milli. AFP

Matvæli rotnuðu í ísskápum og frystum heimila jafnt sem verslana og vöruskemma. Þegar var þjóðin að glíma við allsherjar matarskort. Þetta bætti því gráu ofan á svart. Sjúkrahús, sem stóðu þegar mjög tæpt þar sem lyf vantar tilfinnanlega og starfsfólki hefur fækkað, glímdu við að halda lífsnauðsynlegum tækjum gangandi.

Samgöngur fóru allar úr skorðum. Lestirnar hættu að ganga, meðal annars í höfuðborginni Karakas. Vatnsdælur hættu líka að virka og fólk þurfti að sækja sér vatn í skolprör og mengaðar ár. Áfram mætti telja. Efnahagslegt hyldýpi virðist blasa við verði ekkert að gert. Ástandið jafnast á við það sem ríkir í löndum eftir langvinnar styrjaldir.

Hermenn standa á götuhorni í Karakas að kvöldi í rafmagnsleysi.
Hermenn standa á götuhorni í Karakas að kvöldi í rafmagnsleysi. AFP

Rafmagnsleysið var útbreitt í tæpa viku. Rafmagninu hefur frá þessum svarta marsdegi enn ekki verið komið alls staðar á. Síðast í gær fór það af á stórum landsvæðum á ný, m.a. í Karakas.

Ríkisstjórnir margra landa vinna nú í sameiningu að því að sammælast um hver sé viðurkennd ríkisstjórn Venesúela. Ekki fyrr en þá verður hægt að koma alþjóðlegri aðstoð, m.a. frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, til landsins.

„Við höfum mjög, mjög miklar áhyggjur af því hörmungarástandi sem er að eiga sér stað í Venesúela beint fyrir framan augun á okkur,“ segir Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sjóðurinn telur að verðbólga í landinu verði 10 milljón prósent í ár.

Vatnsskortur er viðvarandi vegna rafmagnsleysisins.
Vatnsskortur er viðvarandi vegna rafmagnsleysisins. AFP

Ríkisstjórnir margra landa, m.a. Bandaríkjanna, hafa viðurkennt Guaido sem forseta. Sömu sögu er að segja um bandalag Suður-Ameríkuþjóða. Nú er beðið eftir viðbrögðum Sameinuðu þjóðanna.

„Allir saman út á götu! Hefjum lokakafla valdtökunnar!“ sagði Guaido um síðustu helgi er hann hvatti til fjöldamótmæla í landinu. Hann segist ætla að gera allt sem í hans valdi standi til að þrýsta enn frekar á að Maduro fari frá völdum fyrir fullt og allt.

Maduro nýtur kannski ekki stuðnings margra annarra landa en hann hefur enn stuðnings hers Venesúela sem og kínverskra og rússneskra stjórnvalda.

Flutningskerfi raforku í Venesúela er komið að fótum fram. Hér …
Flutningskerfi raforku í Venesúela er komið að fótum fram. Hér eru starfsmenn á leið til viðgerða eftir að eldur kviknaði í tengivirki. AFP

En það er auðvitað sérdeilis sérstök staða sem upp er komin þegar tveir menn segjast forsetar í sama landinu. „Það er að verða öllum ljóst að Maduro getur ekki einu sinni framkvæmt grundvallaratriði sem stjórnvöld eiga að sinna, eins og að láta ljósin loga,“ segir Nicholas Casey, fréttastjóri New York Times í Suður-Ameríku, sem var staddur í Venesúela í vikunni.

Hann segir þetta hafa orðið til þess að auka fylgi Guaido til muna, styrkja stöðu hans rækilega. „Þetta hefur undirstrikað þá spurningu sem allir í Venesúela spyrja sig: Ef þú getur ekki útvegað rafmagn getur þú þá stjórnað ríki?“

Greinin er byggð á fréttum New York Times (hér og hér), Guardian (hér og hér), AFP, BBC og fleiri fjölmiðla.  

Nicolas Maduro, sem tók við embætti forseta Venesúela í þriðja …
Nicolas Maduro, sem tók við embætti forseta Venesúela í þriðja sinn nú í janúar, er enn vígreifur, þrátt fyrir mikinn mótbyr. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert