Notre Dame bjargað frá gjöreyðileggingu

Þessi loftmynd sýnir hversu útbreiddur eldurinn var. Þak Notre Dame …
Þessi loftmynd sýnir hversu útbreiddur eldurinn var. Þak Notre Dame er farið að fullu og stærsta turnspíra kirkjunnar hrundi. AFP

Slökkviliðsmönnum tókst að bjarga stærstum hluta burðarvirkis Notre Dame-dómkirkjunnar í París frá eyðileggingu á tíunda tímanum í kvöld, en eldur kviknaði í þaki kirkjunnar nú síðdegis í dag. Þetta staðfesti slökkvilið Parísarborgar í kvöld.

„Við lítum svo á að búið sé að bjarga og ná að verja aðalbyggingu Notre Dame,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Jean-Claude Gallet, slökkviliðsstjóra borgarinnar, en Gallet ræddi við fréttamenn utan við kirkjuna í kvöld. Sagði hann að svo virtist sem einnig hefði tekist að bjarga tveimur aðalturnum kirkjunnar.

Verkefnið sem nú blasi við slökkviliðsmönnum sé að ná að kæla kirkjuna niður og að sagði hann það verk munu taka nokkra klukkutíma. Um 400 slökkviliðsmenn hafa tekið þátt í aðgerðunum.

Logarnir lýsa hér upp vinnupalla á þaki kirkjunnar.
Logarnir lýsa hér upp vinnupalla á þaki kirkjunnar. AFP

„Munum endurreisa Notre Dame“

Laurent Nunez, aðstoðarinnanríkisráðherra sem einnig var á vettvangi, sagði að í fyrsta skipti frá því að eldurinn kviknaði virtist sem dregið hefði úr ofsa eldsins. Hann hvatti þó til fyllstu varúðar.

Þá varði Nunez að ekki hefðu verið notaðir vatnsbelgir og þeim varpað yfir eldhafið líkt og Donald Trump Bandaríkjaforseti lagði til á Twitter í dag. Sagði hann slíkar aðgerðir hefðu getað valdið „verulegri hættu“ fyrir burðarvirki Notre Dame.

Emmanuel Macron hét því í kvöld að endureisa Notre Dame.
Emmanuel Macron hét því í kvöld að endureisa Notre Dame. AFP

„Við munum endurreisa Notre Dame,“ hét Emmanuel Macron Frakklandsforseti nú í kvöld eftir að hafa gert sér ferð að eldstað. Var Macron með tárin í augunum er hann sagði að „búið væri að koma í veg fyrir það versta“ þökk sé baráttu slökkviliðsmanna sem hafi bjargað tveimur turnum og framhlið kirkjunnar. Hét Macron því að fá þá „allra hæfileikaríkustu“ til að endurbyggja restina.  

Fólk kom saman á götum úti og fylgdist með baráttunni …
Fólk kom saman á götum úti og fylgdist með baráttunni við eldinn. AFP
Reyk og eld lagði frá Notre Dame.
Reyk og eld lagði frá Notre Dame. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert