Notre Dame var hálftíma frá eyðileggingu

Ekki munaði nema 15-30 mínútum að ekki tækist að bjarga Notre Dame dómkirkjunni í París, þar sem eldur kom upp í síðdegis í gær. Þetta sagði Laurent Nuñez, aðstoðarinnanríkisráðherra Frakklands í dag og lofaði hugrekki slökkviliðsmannanna sem „hættu eigin lífi“ til að bjarga burðarvirki kirkjunnar og turnunum tveimur. Þá mynduðu slökkviliðsmenn um tíma mannlega keðju til að bjarga listmunum út úr brennandi byggingunni.

Verulega miklar skemmdir urðu þó á þessari 850 ára gömlu kirkju. Trévirkið er að mestu brunnið til kaldra kola og hæsta turnspíran féll í eldinum. Upptök eldsins eru enn ókunn, en ekki er þó talið um viljaverk að ræða og hefur saksóknari Parísar, Rémy Heitz sagt að þar hallist menn að því að um óhapp hafi verið að ræða. 50 starfsmenn skrifstofunnar rannsaka nú upptök eldsins.

„Við vitum núna að þetta snérist orðið um 15 til 30 mínútna glugga,“ hefur BBC eftir Nuñez. Hann bætti við að lögregla og slökkvilið muni nota næstu tvo daga í að meta öryggi byggingarinnar.

Þegar er farið að huga að endurbyggingu kirkjunnar, en Emmanuel Macron Frakklandsforseti hét því í gær að það yrði gert. Í dag sagðist forsetinn ætla fimm ár í verkið, en sérfræðingar telja þó líklegra að verkið geti tekið 10-15 ár.

Hét Macron því að reisa Notre Dame jafnvel enn fegurri en fyrr. „Við munum gera þessar hörmungar að tækifæri til að sameinast,“ sagði forsetinn.

Fjöldi fyrirtækja og auðmanna hafa þegar heitið fjárgjöfum til verksins og segir franska dagblaðið Le Monde um 700 milljónir evra hafi þegar safnast. Þá hefur boð um aðstoð borist víðsvegar að úr heiminum og hvatti m.a. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, ríki ESB til að styðja Frakka. Eins hefur Frans Páfi lýst yfir stuðning við Frakka og ræddu þeir Macron saman í síma í dag um eldinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert