Íhaldsmenn guldu afhroð í kosningunum

Theresa May forsætisráðherra Bretlands. Flokkur hennar galt afhroð í sveitastjórnarkosningum …
Theresa May forsætisráðherra Bretlands. Flokkur hennar galt afhroð í sveitastjórnarkosningum í gær. AFP

Breski Íhaldsflokkurinn galt afhroð í sveitastjórnarkosningum sem fram fóru í landinu í gær. Flokkurinn missti 1.334 þeirra fulltrúa sem flokkurinn fékk í kosningunum 2015. Er þetta stærsta tap Íhaldsflokksins frá því John Major, þáverandi leiðtogi flokksins var forsætisráðherra. Guardian segir vonsvikna kjósendur hafa yfirgefið flokkinn í hrönnum, meðal annars í sveitarfélögum þar sem Íhaldsflokkurinn hefur lengi haft sterk ítök.

Búist hafði verið við að Verkamannaflokkurinn myndi auka stuðning sinn í kosningunum, en þess í stað missti flokkurinn kjósendur og meirihluta sinn í fjölda sveitarfélaga.

BBC segir háttsetta íhaldsmenn hafa í dag hvatt stuðningsmenn flokksins til að snúa bökum saman. Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid, viðurkenndi þó að málið snúist um skort á trausti vegna Brexit. Sagði Javid að kosningar til Evrópuþingsins yrðu þó „enn meiri áskorun“.

Frjálslyndir demókratar voru hins vegar ótvíræður sigurvegari kosninganna, en flokkurinn bætti við sig 703 sveitastjórnarmönnum. Þá gekk Græningjum einnig vel. „Kjósendur eru greinilega leiðir á sömu gömlu stjórnvöldunum og flokkum fortíðar sem hafa komið Bretlandi í Brexit-ringulreið,“ hefur Guardian eftir Sian Berry einum leiðtoga Græningja.

Hafa bæði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins,  heitið því í kjölfar kosninganna að setja aukin kraft í samræður flokkanna um sameiginlega lausn á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert