Þögðu um gallann í meira en ár

AFP

Boeing-flugvélaframleiðandinn deildi ekki upplýsingum um galla í viðvörunarkerfi 737 MAX-þotunnar þegar hann kom fyrst í ljós, um ári áður en þota Lion Air brotlenti í Indónesíu í október. Allir um borð létust. Eftir flugslysið upplýsti Boeing einhver flugfélög og flugmenn um gallann en upplýsingarnar voru afar misvísandi.

Það var ekki fyrr en fimm mánuðum síðar, þegar þota Ethiopia Air fórst sem Boeing fór loks að taka málið föstum tökum. En þrátt fyrir það var ekki upplýst um málið opinberlega fyrr en sex vikum síðar, að sögn talsmanns Flugmálastjórnar Bandaríkjanna. Hann segir í samtali við Wall Street Journal að forstjóri stofnunarinnar hafi ekki vitað af þessum galla fyrr en þá. 

Ekki hefur áður komið fram hversu langur tími leið frá því Boeing gerði sér grein fyrir vandamálinu og þangað til upplýst var um það opinberlega. 
Boeing greindi frá því í dag að verkfræðingar félagsins hafi séð að viðvörunarljós voru ekki að virka sem skyldi í flugstjórnarklefanum vegna hugbúnaðargalla. Á þeim tíma hafi félagið treyst á hefðbundna innanhússferla í slíkum málum og að gallinn hefði ekki áhrif á öryggi vélanna. Háttsettir menn innan fyrirtækisins vissu ekki af þessu fyrr en daginn sem Lion Air-þotan fórst, samkvæmt tilkynningu sem Boeing sendi frá sér í dag. 
Líkt og fram hefur komið er um að ræða svonefndan MCAS-búnað og er unnið að því að uppfæra hugbúnaðinn og koma þannig í veg fyrir að áfallshornsnemar sendi frá sér rangar upplýsingar og virki MCAS-búnaðinn sem beinir flugvél niður á við. Kastljósið hefur verið á þann búnað sem meginástæðu þess að þotur Ethiopian Airlines og Lion Air steyptust niður en með þeim fórust allir sem um borð voru, samtals 346 manns. 

Félagið hefur kynnt breytingar á hugbúnaði MAX-vélanna, sem á að koma í veg fyrir að svonefnt MCAS-kerfi bili, en það á að koma í veg fyrir að flugvélin ofrísi. Rannsóknir flugslysanna í Eþíópíu og Indónesíu hafa hins vegar beinst í síauknum mæli að bilun í búnaðinum, sem hafi ýtt vélunum niður á við á meðan flugmennirnir reyndu að halda þeim á lofti.

Boeing hefur meðal annars komið í veg fyrir að MCAS-kerfið reyni ítrekað að laga flug vélarinnar þegar flugmaður hennar reynir að ná stjórn á henni á ný, auk þess sem að það á að slökkva á sér ef tveir skynjarar, sem eiga að nema loftstreymi í kringum vélina, eru ekki á einu máli um það hver mælingin sé.

Þá mun flugfélögum bjóðast að fá viðvörunarljós í flugstjórnarklefann sem láti vita þegar skynjararnir eru ekki samstíga. Að lokum mun fyrirtækið endurskoða þjálfunarferil flugmanna sem hafa lært á 737, svo þeir skilji betur hvernig 737 MAX-vélarnar virki, að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins nýverið.

Frétt Wall Street Journal í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert