Brexit-flokkurinn afgerandi sigurvegari

Nigel Farage, stofnandi og leiðtogi Brexit-flokksins, var að vonum kátur …
Nigel Farage, stofnandi og leiðtogi Brexit-flokksins, var að vonum kátur þegar línur fóru að skýrast í niðurstöðum kosninga til Evrópuþingsins. AFP

Brexit-flokkurinn vann afgerandi kosningasigur í Bretlandi í Evrópuþingkosningunum með Nigel Farage í broddi fylkingar. Bretar fá 73 þingsæti á Evrópuþinginu og fyrir liggur að Brexit-flokkurinn fær 28 sæti, með 32% greiddra atkvæða, en talningu er lokið í 10 af 12 kjördæmum í Bretlandi.

Á sama tíma tapa tveir stærstu flokkarnir á breska þinginu fjölda þingsæta á Evrópuþinginu. Íhaldsflokkurinn fær þrjú sæti og er fimmti stærsti flokkurinn og Verkamannaflokkurinn fær 10 þingsæti.

Frjálslyndir demókratar og Græningjar áttu góðu gengi að fagna í kosningunum, sá fyrrnefndi með 15 þingmenn og síðarnefndi með sjö. „Hvert atkvæði til Frjálslyndra demókrata er atkvæði til að stöðva Brexit,“ segir Jo Swinson, leiðtogi flokksins. 

Fái sæti við samningaborðið um Brexit

Farage, sem hefur setið á Evrópuþinginu fyrir Breta í 20 ár, lengst af fyrir UKIP, fer fram á að Brexit-flokkurinn fái sæti við samningaborðið um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Vísar Farage til þess að í flokknum sé fjöldi fólks sem hefur reynslu af álíka viðræðum.

Af nægu er að taka hjá hinum unga Brexit-flokki sem undirbýr sig nú fyrir þingkosningar í Bretlandi. Farage fullyrðir að ef Bretar verði ekki búnir að yfirgefa ESB fyrir 31. október verði úrslit þingkosninganna svipuð fyrir Brexit-flokkinn og nú um helgina.


Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert