Dagurinn sem réði örlögum Evrópu

Bandarískir hermenn ganga á land í Normandí í Frakklandi í …
Bandarískir hermenn ganga á land í Normandí í Frakklandi í síðari heimsstyrjöldinni. AFP

6. júní 1944 hófu breskar, bandarískar og kanadískar hersveitir Bandamanna innrás í Frakkland sem var þá hernumið af nasistum Þýskalands. Á daginn kom að innrásin var upphafið að endalokunum hjá Adolf Hitler og yfirráðum hans í Evrópu. Innan við ári síðar lauk annarri heimsstyrjöldinni með sigri bandamanna.                 

Snemma morguns 5. júní 1944 veitti bandaríski herforinginn Dwight D. Eisenhower lokasamþykki sitt fyrir innrás í Normandí í Norður-Frakklandi. Vonskuveður í Ermasundi hafði valdið því að bandamenn höfðu frestað innrásinni um einn dag en nú var storminn að lægja og rétti tíminn kominn eftir rúmlega árs undirbúning. Í skilaboðum sínum til hersveita bandamanna þennan morgun sagði Eisenhower við menn sína að „augu heimsins“ væru á þeim og það voru orð að sönnu.

Dwight D. Eisenhower gefur hermönnum bandamanna leiðbeiningar skömmu áður en …
Dwight D. Eisenhower gefur hermönnum bandamanna leiðbeiningar skömmu áður en þeir héldu af stað með svifflaugsdrekum til Normandí. AFP

Síðdegis þennan sama dag yfirgaf einn stærsti herskipafloti sögunnar hafnir við suðurströnd Englands. Um borð í hverju skipi, sem voru alls 2.700 talsins, voru herlið, birgðir og skotvopn. Skömmu fyrir miðnætti héldu síðan fyrstu fallhlífasveitir bandamanna af stað yfir Ermasundið ásamt flugsveitum í svifflugsdrekum.

Gáfu ströndunum dulnefni

Fyrstu svifflugsdrekarnir lentu við Bénouville í Normandí um stundarfjórðungi eftir miðnætti og innan við tíu mínútum eftir að hermennirnir komu sér frá borði höfðu bandamenn náð á vald sitt báðum takmörkum sínum, tveimur brúm sem þjónuðu mikilvægu herfræðilegu hlutverki. Á sama tíma lentu bandarískar fallhlífasveitir umhverfis bæinn Sainte-Mére-Église. Eftir nokkurra klukkustunda bardaga varð bærinn sá fyrsti í Frakklandi til að vera frelsaður af bandamönnum.

Rúmlega tuttugu mínútum yfir fimm morguninn 6. júní hófu herskip bandamanna skothríð á þýska varnarliðið meðfram ströndum Normandí. Um klukkustund síðar gengu svo fyrstu hersveitir sjóliðsins á land í Normandí og ganga svæðin sem þeir koma að undir dulnöfnunum Utah og Omaha. 

Skýringarkort af innrás bandamanna í Normandí.
Skýringarkort af innrás bandamanna í Normandí. Kort/AFP

Klukkustund síðar gerðu breskar og kanadískar hersveitir árásir á önnur svæði strandlengjunnar sem kölluð voru Gold, Juno og Sword. Á Omaha sátu hersveitir bandamanna undir gríðarlega umfangsmiklum skotárásum og fékk þessi partur strandarinnar síðar gælunafnið „Blóðuga Omaha“.

Tundurdufl settu strik í reikninginn

Sveitir Omaha voru á þessum tímapunkti margar orðnar forningjalausar og óttaslegnar. Eftirlifendur á Omaha sem höfðu komist upp af ströndinni þyrptust saman og horfðu á látna og deyjandi félaga sína. Sveitum Bandaríkjanna annarsstaðar á strandlengjunni gekk nokkuð betur á þessum tímapunkti þó svo að varnarhindranir Þjóðverja á borð við tundurdufl í sjávarmálinu settu strik í reikninginn.

Upp úr hádegi var ástandið í Omaha farið að skána. Eftirlifandi herlið komst upp fyrir strandbjörgin þaðan sem sjá mátti hundruð fórnalamba dreifð um ströndina. Meðfram strandlengjunni streymdi lið bandamanna upp af ströndinni og inn í landið þó að Þjóðverjar hafi barist áfram af ákafa á helstu vígstöðvum sínum.

Bandarískir hermenn komnir á land í Normandí í Frakklandi.
Bandarískir hermenn komnir á land í Normandí í Frakklandi. AFP

Um klukkan tvö eftir hádegi höfðu bandamenn að mestu náð valdi á ströndum Normandí og hófu þá að herja á hafnarborgina Caen og liðsauka nasista umhverfis bæinn. Bandamenn höfðu áður komið dreifiritum til almennra borgara og vöruðu við stórskotaárásum. Þrátt fyrir þetta höfðu fáir íbúar yfirgefið svæðið og um hálftíma síðar höfðu hundruð bæjarbúa fallið í valinn eða slasast í skotárásum bandamanna. Hálfbrennandi borgin var þó áfram í höndum Þjóðverja um hríð.

Örlög Evrópu ráðin 

Klukkan átta að kvöldi dags nálguðust breskir varðflokkar smábæinn Bayeux sem var hernaðarlega mjög mikilvægur og áætlunin var að ná honum á vald bandamanna á þessum fyrsta degi innrásarinnar. Daginn eftir var bærinn frelsaður.

Eftir því sem leið á kvöldið héldu bardagar áfram og liðsauki barst bandamönnum reglulega með svifflaugsdrekum. Bandamenn höfðu komið að landi á rúmlega 88 kílómetra svæði á strandlengjunni og höfðu nú yfir 140.000 hermenn í landi.

Þó að bandamönnum hafi ekki tekist að ná Caen-borg á sitt vald og misst þúsundir manna sinna þennan sögulega dag, unnust stórir sigrar. Bandamenn voru komnir með fótfestu í Frakklandi sem átti eftir að verða upphafið að frelsun Evrópu vorið eftir. Aðeins ellefu mánuðir áttu eftir að líða þar til stríðið hafði verið unnið og Adolf Hitler látinn.

Alls voru 156.000 hermenn bandamanna á 5 stöðum á ströndum Normandí þennan dag fyrir 75 árum. Um 7.000 skip og landgönguprammar og yfir 10.000 önnur farartæki bandamanna komu að notum og var eyðileggingin umtalsverð. Af liði bandamanna féllu um 4.400 hermenn í valinn, flestir bandarískir og manntjón Þjóðverja er talið hafa verið á bilinu 4.000 til 9.000 manns.

Leiðtogar minnast innrásarinnar

Innrásarinnar í Normandí er minnst víðs vegar um heiminn í dag og margir af helstu leiðtogum Vesturlandanna hafa verið viðstaddir minningarathafnir.

„Það eina sem við getum sagt við fyrrverandi hermenn er takk,“ sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands við minningarathöfn í Norður-Frakklandi í dag. Emmanuel Macron Frakklandsforseti tók undir orð hennar og sagði viðstöddum fyrrverandi hermönnum sem börðust fyrir bandamenn fyrir 75 árum að heimurinn skuldaði þeim „frelsi okkar“.

Fyrrverandi hermenn bandamanna frá Kanada við minningarathöfnina í Normandí í …
Fyrrverandi hermenn bandamanna frá Kanada við minningarathöfnina í Normandí í dag. AFP

Þá sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti við minningarathöfn í kirkjugarði Bandaríkjahers að þeir bandarísku hermenn sem börðust í Normandí væru „stolt þjóðarinnar“.

Hundruð fyrrverandi hermanna bandamanna komu saman í Normandí í morgun til að minnast innrásarinnar sem er sú stærsta í sögunni sem farið hefur fram á landi, í lofti og á sjó. Klukkan nákvæmlega 26 mínútur yfir 6 í morgun hófst minningarathöfnin með stökum sekkjapípuleikara, en á nákvæmlega þeirri stundu fyrir 75 árum lentu fyrstu bresku hermenn bandamanna á ströndum Normandí.

Helstu leiðtogar heims komu saman í gær, 5. júní, til …
Helstu leiðtogar heims komu saman í gær, 5. júní, til að minnast atburðana saman. AFP

Minningarathöfnin er á meðal síðustu skyldna May sem forsætisráðherra Breta og sagði hún í ræðu sinni að hún væri auðmjúk að fá að minnast atburðanna með hermönnum bandamanna sem upplifðu þá á eigin skinni og tilheyrðu „afar sérstakri kynslóð“.

„Kynslóð sem mótaði heiminn á eftirstríðsárunum með ósigranlegum anda sínum. Þeir gortuðu ekki. Þeir röfluðu ekki. Þeir þjónuðu. Og þeir fórnuðu lífi sínu svo að við gætum lifað betri lífum og byggt upp betri heim,“ sagði May og bætti við:

„Ef það er einhver dagur sem réði örlögum framtíðar kynslóða í Frakklandi, Í Bretlandi, Í Evrópu og í heiminum öllum, þá er sá dagur 6. júní 1944.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert