25 slasast í sprengingu í Linköping

Skemmdir á bæði svölum og gluggum hússins eru vel sýnilegar.
Skemmdir á bæði svölum og gluggum hússins eru vel sýnilegar. AFP

Á þriðja tug manns slasaðist er öflug sprenging varð í fjöl­býl­is­húsi í miðbæ Lin­köp­ing í Svíþjóð í morg­un. Sprengjusveitin var kölluð til og hefur lögregla og slökkvilið verið með mikinn viðbúnað á vettvangi og var stóru svæði í næsta nágrenni lokað af.

Sænska ríkisútvarpið SVT hefur eftir lögreglu að vitað sé til þess að 25 manns hið minnsta hafi slasast í sprengingunni. Enginn þeirra er þó sagður alvarlega slasaður.

„Við erum með mikið af fólki á vettvangi,“ hefur SVT eftir Björn Öberg, talsmanni lögreglu. „Nú snýst þetta um að loka af svæðinu og hleypa engum þar inn sem ekki eiga að vera.“

Hjálparsveitir og lögregla að störfum á vettvangi. Lögregla er með …
Hjálparsveitir og lögregla að störfum á vettvangi. Lögregla er með mikinn viðbúnað á staðnum. AFP

Það var klukk­an níu í morg­un sem sím­töl tóku að ber­ast sænsku neyðarlín­unni vegna spreng­ing­ar­inn­ar og eru um­tals­verðar skemmd­ir sýni­leg­ar á svöl­um og glugg­um í þessu fimm hæða húsi, en þar eru bæði íbúðir og fyrirtæki. Einnig urðu nokkrar skemmdir á nærliggjandi byggingum.

Ekki ligg­ur enn fyr­ir hvað olli spreng­ing­unni, en ekkert gas er þó í húsinu að sögn talsmanns eiganda hússins.

Lögregla útilokar þó ekki að um óhapp sé að ræða, að því er SVT hefur eftir Åsa Willsund, talskonu lögreglunnar. Á þessu stigi vinnur lögregla þó út frá þeim forsendum að almannahætta stafi af.

Hæsta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir á háskólasjúkrahúsinu í Linköping og er einnig aukinn viðbúnaður á öðrum sjúkrahúsum í héraðinu.

Stórt svæði í nágrenni hússins var girt af, en orsök …
Stórt svæði í nágrenni hússins var girt af, en orsök sprengingarinnar liggur ekki fyrir. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert