Þingmenn fela sig fyrir lögreglu í Oregon

Þingsalurinn í höfuðborginni Salem í Oregon-ríki í Bandaríkjunum stendur auður …
Þingsalurinn í höfuðborginni Salem í Oregon-ríki í Bandaríkjunum stendur auður eins og er. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ellefu þingmenn Repúblikaflokksins á ríkisþingi Oregon-ríki í Bandaríkjunum eru farnir í felur til þess að koma í veg fyrir að frumvarp til laga um loftlagsmál verði samþykkt. Ríkislögreglunni í Oregon hefur verið veitt heimild til að hafa uppi á þeim.

BBC greinir frá þessu.

Þingmennirnir ellefu yfirgáfu ríkisþingið í borginni Salem í Oregon á fimmtudag síðastliðinn og hafa ekki snúið aftur og ekkert hefur spurst til þeirra. Talið er að þeir hafi farið yfir til Idaho-ríkis og þar með úr lögsögu ríkislögreglunnar í Oregon.

Demókrataflokkurinn er með meirihluti í þinginu í Oregon eða 18 af 30 þingmönnum. Þingmenn flokksins hugðust leggja fram og samþykkja frumvarp sem myndi herða löggjöf um loftlagsmál og setja ríkari kröfur á einstaklinga og fyrirtæki í því skyni að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Samkvæmt þingskaparlögum þurfa að minnsta kosti 20 þingmenn að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu og því er ekki hægt að kjósa um málið á meðan þingmenn Repúblikaflokksins eru í felum.

Ríkisstjóri Oregon, Kate Brown, hefur nú veitt lögregluyfirvöldum heimild til að finna þá. „Það er algjörlega óásættanlegt að þingmenn Repúblikaflokksins snúi bökum sínum að umbjóðendum sínum með þessum hætti. Þeir þurfa að snúa til baka og sinna þeim störfum sem þeir voru kosnir til að sinna,“ sagði hún við fjölmiðla þar ytra.

Áætluð þinglok eru 30. júní og þingflokksformaður Repúblikaflokksins segir að þingmenn flokksins munu tefja málið þangað til. Þingmönnunum hefur verið gert að greiða 500 bandaríkjadollara fyrir hvern dag sem þeir eru fjarverandi.

Miklar umræður hafa spunnist um fjarveru þingmannanna á samfélagsmiðlum eins og gefur að skilja og sumir íbúar Oregon-ríkis telja þá vera vinna hetjudáð með uppátæki sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert