Tók 20 skref á norðurkóreskri grund

Donald Trump er farinn frá Kóreu eftir sögulegan fund með …
Donald Trump er farinn frá Kóreu eftir sögulegan fund með KIm Jung-un leiðtoga Norður-Kóreu. AFP

Fundur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jung-un var klukkutíma langur. Þeir hittust í þorpinu Panmunjon á hlutlausa svæðinu milli Kóreuríkjanna tveggja í morgun og áttu þar tal saman í einrúmi. Eftir fundinn ákváðu bæði ríkin að skipa starfshópa sem færu yfir kjarnorkuáætlun.

Trump er farinn frá Suður-Kóreu eftir þennan „frábæra“ fund sem felur í sér „mikilvæga yfirlýsingu“ að sögn Trump á samskiptamiðlinum Twitter.  

Leiðtogarnir hittust formlega og tókust í hendur. Eftir það settust þeir niður í Friðarhúsið svokallaða við landamærin og ákváðu að vinna að skilmálum sem snerta kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu enn frekar. Samskipti ríkjanna hafa vægast sagt verið erfið undanfarið. Trump hefur krafist þess að N-Kór­eu­menn láti af allri kjarn­orku­vopna­fram­leiðslu og Kim krefst þess að þving­un­araðgerðum gegn ríkinu sé aflétt.

Þetta er í fyrsta skipti sem forseti Bandaríkjanna stígur fæti á norður-kóreska grund. Hann tók þar 20 skref með Kim Jung-un sér við hlið. Allt var þetta í beinni útsendingu og atburðurinn myndaður í bak og fyrir sem átti sér stað kl. 3:45 að staðartíma. Eftir það kvöddust þeir og héldu hvor í sína áttina.  

„Það er gott að sjá þig aftur. Ég bjóst ekki við að hitta þig hér,“ sagði Kim og brosti út að eyrum við Trump en túlkur þýddi samtal þeirra. „Stór stund ... stórkostlegar framfarir,“ svaraði Trump um hæl þegar Kim gekk að honum og heilsaði með handabandi.   

Kim virtist afslappaður þegar hann gekk inn í Friðarhúsið. Að því tilefni sagði Trump „ég tel þetta lýsa vilja okkar til að líta framhjá erfiðleikum í fortíðinni og líta til framtíðar.“

Trump bauð Kim að heimsækja sig í Hvíta húsið. Kim þekktist boðið með því að svara því til að „þegar þar að kemur langar mig að bjóða þér til Pyongyang.

Kim Jung-un býður Trump velkominn yfir landamærin.
Kim Jung-un býður Trump velkominn yfir landamærin. AFP

Fjórir forverar Trump hafa þó heimsótt landamærasvæðið áður. Það eru þeir Barack Obama, George W. Bush, Bill Clinton og Ronald Reagan. Tilgangur þeirra heimsókna var allt annar og var til stuðnings Suður-Kóreu.

Stjórnmálaskýrandi BBC, Laura Bicker, benti á að þrátt fyrir að vel hafi farið á með þeim félögum þýði það ekki að þeir séu eitthvað nær því að nálgast sáttmála um kjarnorkuáætlun og þvinganir gegn N-Kóreu.

Fjölmargir hafa tjáð sig um fund þeirra á Twitter og sitt sýnist hverjum. 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert