Boris henti sendiherranum fyrir vagninn

Boris Johnson hefur verið sakaður um heigulshátt.
Boris Johnson hefur verið sakaður um heigulshátt. AFP

Boris Johnson er talinn vera undir miklum þrýstingi eftir að Sir Kim Darroch sagði af sér embætti sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum. Háttsettir aðilar í breska Íhaldsflokknum telja hann hafa fórnað sendiherranum, eða „hent honum fyrir vagninn“ eins og Bretar segja, með því að neita að taka upp hanskann fyrir hann í sjónvarpskappræðunum milli hans og Jeremy Hunt á sjónvarpsstöðinni ITV í gærkvöldi.

The Guardian greinir frá.

Sir Kim Darroch sagði af sér embætti sem sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum í dag eftir að tölvupóstum þar sem hann fór ófögrum orðum um Donald Trump Bandaríkjaforseta var lekið.

Á starfsmannafundi í dag þar sem Darroch tilkynnti um uppsögn sína sagði hann ástæðuna vera að lekinn hafi gert honum fullkomlega ómögulegt að sinna starfi sendiherra áfram eftir að tölvupóstum hans var lekið. Í þeim lýsti hann bandarískum stjórnvöldum sem óhæfum og ótraustum vegna Trump forseta.

Heimildir The Guardian herma hann hafi tekið lokaákvörðun um að segja af sér eftir að Boris Johnson neitaði ítrekað að segja til um hvort hann kæmi til með að reka sendiherrann ef hann yrði kosinn formaður Íhaldsflokksins.

Íhugar að koma í veg fyrir að Johnson velji sendiherra

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er talin vera að íhuga að skipa nýjan sendiherra áður en hún stígur formlega til hliðar sem forsætisráðherra til að koma í veg fyrir að Johnson skipi umdeilda manneskju í embætti sendiherra til að þóknast Trump.

Þingmenn Íhaldsflokksins hafa gagnrýnt Johnson fyrir heigulshátt. Formaður utanríkismálanefndar breska þingsins, Tom Tugenhat, spurði: „Ef þú styður ekki við bakið á þeim sem þú setur í erfiða stöðu, hvað heldurðu þá eiginlega að gerist?“

May talaði nokkuð undir rós þegar hún var spurð um málið í dag. „Ég vona að fulltrúadeild þingsins muni hugsa alvarlega um mikilvægi þess að verja gildi okkar og stefnu, sérstaklega þegar við erum beitt þrýstingi.“

Johnson, sem starfaði með Darroch þegar sá fyrrnefndi var utanríkisráðherra, sagðist vera leiður yfir starfslokum Darroch. Spurður hvers vegna hann hafi ekki staðið fastar við bakið á honum svaraði Johnson því að honum hefði þótt „rangt að draga embættismann inn í sviðsljósið“.

Enn er unnið að því að rannsaka gagnalekann og talsmaður utanríkisráðuneytisins fullvissaði þingmenn fulltrúadeildar breska þingsins að borið yrði kennsl á sökudólginn fyrr eða síðar og öllum ráðum yrði beitt til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert