Bylgja ölvunarmála hjá SAS

Þrjú mál sem snúa að áfengisneyslu áhafna SAS hafa komið …
Þrjú mál sem snúa að áfengisneyslu áhafna SAS hafa komið upp á 40 dögum, öll á Sola-flugvellinum við Stavanger. Í tveimur tilfellum var um starfsmenn írska verktakans CityJet að ræða. SAS og lögregla segjast líta málin mjög alvarlegum augum. AFP

Flugi skandinavíska flugfélagsins SAS frá Stavanger til Óslóar í Noregi seinkaði um fimm klukkustundir í gærmorgun eftir að öndunarsýni leiddi í ljós að flugmaður, sem var við það að fara í loftið frá alþjóðaflugvellinum í Sola, nágrannabæ Stavanger, sem almennt er þó vísað til sem flugvallar Stavanger, var ekki í ástandi til að stjórna flugvél svo öruggt mætti teljast.

Slík mál koma upp með reglulegu millibili en millibilið verður þó æ óreglulegra hvað Stavanger-flugvöllinn snertir, þetta er þriðja öndunarsýnistilfellið á 40 dögum sem verður til þess að einhver úr áhöfn þar á vellinum þarf frá að hverfa.

Flugmaðurinn í gær er starfsmaður írska lággjaldaflugfélagsins CityJet sem leigir SAS áhafnir, en 11. júní kom sams konar mál upp og var þá um að ræða flugmann sem var starfsmaður SAS. Var hann sviptur flugskírteini sínu, málið sem upp kom í gærmorgun verður hins vegar rekið hjá írska fyrirtækinu, að sögn Karin Nyman, upplýsingafulltrúa SAS, sem norska dagblaðið VG ræðir við í dag.

Biður viðskiptavini afsökunar

Þriðja málið kom svo upp 8. júlí þegar flugfreyja í flugi SAS frá Sola-flugvellinum til Kaupmannahafnar lenti í úrtaki fyrir öndunarsýni og mælingin gaf til kynna áfengi í blóði. Var þar einnig um starfsmann CityJet að ræða og segir Victoria Hillveg í suðvesturumdæmi lögreglunnar í samtali við Stavanger Aftenblad, sem rekur læsta áskriftarþjónustu, að þar á bæ sé málið litið mjög alvarlegum augum.

Nyman upplýsingafulltrúi segir flugfélagið biðja viðskiptavini sína innilegrar afsökunar, SAS hafi núllumburð (n. nulltolleranse) gagnvart áfengisnotkun starfsmanna sem áhrif hafi inn á vinnutíma viðkomandi. „Það er ákaflega alvarlegt fyrir félagið þegar viðlíka mál koma upp,“ segir Nyman við VG.

Aftenposten hefur einnig fjallað um málin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert