Reikna með samningslausu Brexit

Michael Gove.
Michael Gove. AFP

Breska ríkisstjórnin vinnur nú út frá því að Bretland gangi út úr Evrópusambandinu 31. október, samningslaust. Þetta kemur fram í grein sem ráðherrann Michael Gove skrifaði í Sunday Times í dag en Boris Johnson forsætisráðherra fól Gove að undirbúa samningslaust Brexit.

Fram kom í máli Boris Johnson í gær að hann hefði frekar vilja gera samning við Evrópusambandið um Brexit en hins vegar væri mikilvægt að undirbúa það að Bretland gengi samningslaust út úr Evrópusambandinu.

Gove segist vongóður um að Evrópusambandið væri tilbúið að endurskoða samninginn sem það náði við Theresy May, fráfarandi forsætisráðherra. Sá samningur var samþykktur í Brussel en ítrekað felldur í breska þinginu.

„Við verðum samt að vinna út frá þeirri forsendu að það verði ekki raunin,“ skrifaði Gove.

„Þú getur ekki bara hitað aftur upp réttinn sem var sendur til baka og búist við því að þá verði hann girnilegri,“ skrifaði Gove.

Boris Johnson forsætisráðherra.
Boris Johnson forsætisráðherra. AFP

Talið er að ESB og breska stjórnin muni ekki ná saman varðandi svokallað backstop-ákvæði um landa­mæri Írlands og Norður-Írlands. Í ákvæðinu felst að ef eng­inn viðskipta­sam­ing­ur ligg­ur fyr­ir tveim­ur árum eft­ir út­göngu Breta verði Bret­ar áfram í tolla­banda­lagi ESB þar til bæði stjórn­völd í Bretlandi og í ESB kom­ast að sam­komu­lagi um annað.

Theresa May hafði reynt að fá þessar tillögur samþykktar en við litlar undirtektir í breska þinginu. Krafan er ófrjávíkjanleg af hálfu ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert