Hröpuðu til bana í Noregi

Trollveggen í Rauma í Mæri og Raumsdal, hæsta lóðrétta fjallshlíð …
Trollveggen í Rauma í Mæri og Raumsdal, hæsta lóðrétta fjallshlíð Evrópu. Ljósmynd/Wikipedia.org/Simo Räsänen

Upp úr hádegi í dag barst lögreglunni í Mæri og Raumsdal tilkynning um tvo tékkneska klettaklifrara sem ekkert hafði heyrst frá, en þeir höfðu ætlað að hafa samband við aðstandendur sína á laugardaginn.

Var leitarþyrla þegar gerð út frá Ørlandet og leit hafin við Trollveggen, sem vitað var að mennirnir ætluðu að klífa, en þar er um að ræða hæstu lóðréttu fjallshlíð í Evrópu, alls 1.700 metra háa og þúsund metrar af henni alveg þverhníptir sem gerir þetta náttúrufyrirbæri í fjalllendi Raumsdals að kjörlendi klettaklifrara.

„Þyrlan er besta verkfærið sem stendur til boða við aðstæður sem þessar. Hún kemst hins vegar ekki alveg upp að berginu vegna grjóthruns sem oft er frá því,“ sagði Kjetil Hagen, stjórnandi björgunaraðgerða á svæðinu, við norska ríkisútvarpið NRK í dag.

Ekki áhlaupaverk að komast að þeim

Lögregla fann bifreið klifraranna fljótlega og það var klukkan 15:30 að norskum tíma, 13:30 á Íslandi, í dag að áhöfn þyrlunnar kom auga á tvo hreyfingarlausa líkama við rætur Trollveggen og þótti þá ljóst hvers kyns var, enda höfðu mennirnir ekki haft samband við aðstandendur sína síðan fyrir helgi, en klifurleiðangurinn hófst á fimmtudaginn.

Ekki er hins vegar hlaupið að því að komast að klifrurunum til að flytja jarðneskar leifar þeirra til byggða. „Þetta er mjög krefjandi aðgerð sem verður að fara fram í dagsbirtu og þurru veðri. Við ætlum að meta það á morgun hvort þá verði unnt að sækja þá,“ sagði Borge Amdam, aðgerðastjóri lögreglunnar í Mæri og Raumsdal, við dagblaðið VG í dag.

„Veðrið hefur verið ágætt núna upp á síðkastið svo nú þurfum við bara að krossa fingurna og vona að það haldist gott á morgun,“ sagði Amdam enn fremur.

Dagsavisen

TV2

Adressa

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert