Ítalska ríkisstjórnin fallin

Matteo Salvini, varaforsætisráðherra Ítalíu.
Matteo Salvini, varaforsætisráðherra Ítalíu. AFP

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu og leiðtogi Bandalagsins, hefur lýst því yfir að ríkisstjórnarsamstarfi flokks síns og Fimm stjörnu hreyfingarinnar sé lokið. Ríkisstjórnin hafi reynst óstarfhæf vegna deilna innan hennar og eina leiðin fram á við sé að boða til nýrra kosninga. Búist er við að forseti Ítalíu verði við þeirri bón.

Tilkynningin kemur í kjölfar mikilla deilna undandanfarinna mánaða milli hægriöfgaflokksins Bandalagsins, sem Salvini fer fyrir, og kerfisbreytingaflokksins Fimm stjörnu hreyfingarinnar. Flokkarnir hlutu hvor um sig rúm 30% atkvæða í þingkosningunum í fyrravor og mynduðu í kjölfarið ríkisstjórn. Síðan þá hefur Bandalaginu vaxið ásmegin, en heldur hallað á Fimm stjörnu hreyfinguna. Hinn óháði lögfræðingur Giuseppe Conte hefur gegnt embætti forsætisráðherra, en hefur mörgum þótt sem Matteo Salvini hafi í raun tögl og hagldir á ríkisstjórnartaumunum.

Flokkurinn hefur færri þingmenn en Fimm stjörnu hreyfingin, en nýtur mun meira fylgis um þessar mundir. Þannig uppskar Bandalgið vel í Evrópuþingkosningunum í maí og fékk rúm 34% atkvæða, en samstarfsflokkurinn, Fimm stjörnu hreyfingin, aðeins 17% og varð það ekki til að bæta samskiptin.

Bandalagið hefur reglulega hótað því að boða til kosninga til að nýta sér nýfengnar vinsældir, og nú virðist komið að því að láta á það reyna. Stefnir allt í að Ítalir fái nýjan forsætisráðherra, þann 44. frá stríðslokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert