„Ég setti tvær kúlur í höfuðið á honum“

Madeleine Riffaud, 94 ára, ræðir við blaðamann AFP í íbúðinni …
Madeleine Riffaud, 94 ára, ræðir við blaðamann AFP í íbúðinni sinni í París. AFP

Á sólríkum sumardegi árið 1944 stökk Madeleine Riffaud af reiðhjólinu sínu og elti þýskan hermann sem var á gangi yfir brú við ána Signu í París.

Hann var að virða fyrir sér útsýnið yfir safnið Louvre og Tuileries-garð þegar Riffaud, þá aðeins nítján ára og að læra að verða ljósmóðir, sagði litlum dreng að fara í burtu og tók upp skammbyssuna sína.

„Þetta gerðist allt mjög snöggt,“ sagði hún í samtali við AFP. „Ég vildi ekki skjóta hann í bakið… Ég vildi að hann sæi mig, þannig að hann hefði tíma til að draga upp vopnið sitt.“

„Hann sneri sér við og ég setti tvær kúlur í höfuðið á honum. Hann steinlá. Hann þjáðist ekki neitt.“

„Þetta var ekki gert vegna haturs, ef eitthvað er þá var ég í öngum mínum að þurfa að gera þetta,“ sagði hún með augun lokuð er hún minntist atburðarins.

Riffaud, sem er 94 ára, var einn helsti leiðtogi frönsku andspyrnuhreyfingarinnar sem átti þátt í að frelsa höfuðborgina París í ágúst 1944. Það munaði samt litlu að hún lifði ekki nógu lengi til að upplifa þau tímamót. Þegar hún hjólaði í burtu eftir að hafa drepið þýska hermanninn elti hópur hermanna úr röðum óbreytta borgara hana uppi og ók á hana á bíl sínum.

Hún vissi að henni yrði líklega nauðgað og hún pyntuð áður en þeir dræpu hana. Hún teygði sig í átt að byssunni sinni sem hafði lent á gangstéttinni en þeir náðu henni á undan. 

AFP

„Bjóst við að verða skotin“

„Ég var mjög heppin vegna þess að þeir hefðu getað drepið mig á staðnum,“ sagði Riffaud. Hún var einnig „heppin“ þegar þeir fóru með hana til Gestapo svo að leiðtogi hópsins gæti fengið laun fyrir að hafa fundið hana, í stað þess að fara með hana til eigin manna sem sáu um yfirheyrslur og nauðguðu yfirleitt kvenkyns föngum.

„Vegna þess að þetta gerðist seinnipartinn á sunnudegi voru sérfræðingarnir í pyntingum hjá Gestapo í fríi, þannig að einhver grimmur meðlimur SS-sveitanna rotaði mig en hafði ekki yfir að ráða sömu tækni og sérfræðingarnir.“

„Ég sagði þeim ekki neitt og bjóst við að verða skotin morguninn eftir.“

Þess í stað var hún afhent frönsku lögreglunni. Á meðan hún var í haldi hjálpaði Riffaud konu sem var gyðingur að fæða barn. Það fæddist andvana. Lögreglumaður hafði ítrekað sparkað í magann á henni til að fá hana til að svíkja barnsföður sinn.

Eftir að hafa beðið hann um að flytja konuna, sem hafði misst mikið blóð, á sjúkrahús lamdi lögreglumaðurinn Riffaud og fór með hana aftur til Gestapo og sagði að þeir myndu „stinga úr mér augun og skera mig í litla bita“.

Með níu líf

En einhvern veginn tókst Riffaud, sem hafði tekið upp dulnefnið „Rainer“ eftir austurríska ljóðskáldinu Rainer Maria Rilke, að halda lífi. Henni tókst naumlega að komast hjá því að vera stillt upp fyrir framan aftökusveit áður en henni tókst að sleppa í skamma stund þegar verið var að flytja hana í fangabúðir. Henni var á endanum sleppt úr haldi í fangaskiptum 19. ágúst, viku áður en París var frelsuð.

Einum eða tveimur dögum síðar var Riffaud komin aftur á fullt í andspyrnuhreyfingunni og stjórnaði hún hópi vígamanna úr stétt verkamanna norðaustur af París. Á þessum tíma flykktist fólk í andspyrnuhreyfinguna en það hafði „ekkert gert á meðan á stríðinu stóð. Það flykktist út á götur og lærði fljótt að nota riffil,“ sagði hún, og bætti við að hún hefði verið ánægð með að núna gæti baráttan gegn nasistum hafist fyrir opnum tjöldum.

AFP

Stöðvuðu 80 nasista í lest

Stærsta afrek hennar var að stöðva þýska lest uppfulla af vopnum og öðrum búnaði og taka 80 hermenn sem þar voru um borð höndum. Þrír menn voru henni til aðstoðar og franskur lestarstjóri. Eftir mikinn bardaga þar sem þau vörpuðu handsprengjum og sprengiefni að lestinni skaut Riffaud flugeldum á loft til að gabba Þjóðverjana svo þeir héldu að þeir ættu við ofurefli að etja.

Tveimur dögum síðar, þegar afgangur Parísarbúa fagnaði frelsi borgarinnar, var hún í miðjum bardaga við síðustu herdeild SS-sveitarinnar í borginni. Liðsmenn hennar báru til hennar síðasta liðsmann andspyrnuhreyfingarinnar til að deyja í bardaga í París, en hún gat ekkert aðstoðað hann frekar. Þar var á ferðinni félagi hennar, fiðluleikarinn Michel Tagrine.

Gerðist stríðsfréttaritari

Riffaud reyndi síðar að ganga til liðs við franska herinn en fékk ekki inngöngu vegna þess að hún var kona og ekki orðin 21 árs. Næstu mánuði barðist hún við þunglyndi en komst sem betur fer í kynni við rithöfunda og listamenn á borð við Paul Eluard, Louis Aragon og Pablo Picasso, sem málið af henni andlitsmynd. „Þeir komu í veg fyrir að ég fyrirfæri mér, en margir úr andspyrnuhreyfingunni frömdu sjálfsvíg eftir stríðið.“

Næst gerðist Riffaud stríðsfréttaritari. Hún hitti víetnamska leiðtogann Ho Chi Minh, skrifaði um sjálfsstæðisstyrjöldina í Alsír og bjó á meðal skæruliða Víetkong sem börðust gegn Bandaríkjamönnum í Suður-Víetnam, áður en hún sneri aftur heim til Frakklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert