Óreyndari flugmenn prófi hugbúnaðinn

Kyrrsettar Boeing 737 MAX-farþegaþotur í nágrenni höfuðstöðva Boeing í Seattle.
Kyrrsettar Boeing 737 MAX-farþegaþotur í nágrenni höfuðstöðva Boeing í Seattle. AFP

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) ætla í næsta mánuði að gera prófanir með það hvernig flugmenn, sem ekki hafa nema ársreynslu af Boeing 737-farþegaþotunni bregðast við nýrri uppfærslu Boeing á MCAS-stýrikerfi 737 MAX-vélanna.

Reuters-fréttaveitan hefur þetta eftir fjórum heimildamönnum sem þekkja vel til málsins. Segir Reuters þetta gefa til kynna að endurmat FAA á vélunum, sem hafa verið kyrrsettar frá því farþegaþota Ethiopian Airlines hrapaði í mars, sé að skila árangri. Flugfélög um heim allan, m.a. Icelandair hér á landi, hafa orðið að aflýsa þúsundum flugferða undanfarna mánuði vegna kyrrsetningar MAX-vélanna, með tilheyrandi kostnaði. 

Boeing hefur ítrekað fullyrt að unnið sé að því af fullum krafti að fá loftferðaleyfi fyrir vélarnar. Slíkt gerist hins vegar ekki fyrr en FAA hefur samþykkt kennsluprógram fyrir vélarnar og breytingar hafa verið gerðar á hugbúnaði MCAS-stýrikerfisins, sem talið er hafa átt þátt í tveimur mannskæðum flugslysum.

Þegar Boeing gerði sínar tilraunir með kerfið fékk flugvélaframleiðandinn reynda bandaríska flugmenn til að prófa hugbúnaðaruppfærsluna og notaði við það flugherma þar sem líkt var eftir þeim aðstæðum sem komu upp er vélar Ethiopian Airlines og indónesíska Lion Air-flugfélagsins hröpuðu.

Fengu nöfn nýrra flugmanna hjá þremur flugfélögum

FAA vill hins vegar fylgjast með viðbrögðum tiltölulega óreyndra flugmanna að sögn heimildamanna Reuters.

Í því skyni var haft samband við þrjú bandarísk flugfélög sem hafa notað MAX-vélarnar og þau beðin um nöfn flugmanna, sem starfað hafa skemur hjá þeim og sem flogið hafa MAX-vélunum a.m.k. einu sinni.

Reuters segir prófanirnar líklega verða fyrstu skrefin í átt að víðtækari prófunum sem til að mynda kunni að fela í sér tilvik líkt og það sem FAA uppgötvaði í júní er stofnunin fann galla í örgjafa sem leiddi til hreyfinga á stélenda vélarinnar sem ekki höfðu verið fyrirskipaðar og tilraunaáhöfnin var of lengi að átta sig á.

Einn heimildamaður Reuters sagði prófanirnar upphaflega hafa átt að hefjast í byrjun september, en að þeim hafi nú verið frestað fram í miðjan mánuðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert