Yfir milljón undirskriftir

Ákvörðun forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, um að fresta þingstörfum hefur vakið mikla reiði meðal ýmissa þingmanna og þeirra sem eru á móti útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings. Yfir milljón Breta hefur skrifað undir skjal þar sem þessu er mótmælt.

Elísabet Englandsdrottning hefur fallist á beiðni ríkisstjórnarinnar um að senda þingið heim nokkrum dögum eftir að það kemur saman eftir sumarhlé í næstu viku og þar til stefnuræða stjórnarinnar verður flutt á þinginu 14. október.

Andstæðingar Brexit án samnings segja þetta brot á stjórnarskrá landsins og atlögu að þingræðinu þar sem markmið Johnson væri að koma í veg fyrir að þingið gæti samþykkt lög sem hindruðu útgöngu án samnings. Johnson og stuðningsmenn Brexit án samnings í Íhaldsflokknum neita þessu og segja að fimm vikur sé alveg nægur tími til þess að ræða Brexit. 

Samkvæmt gildandi lögum gengur Bretland úr ESB 31. október og Johnson hefur sagt að útgöngunni verði ekki frestað ef leiðtogar sambandsins hafna kröfu hans um breytingar á Brexit-samningi sem þingið hefur fellt þrisvar. Meirihluti neðri deildar þingsins hefur hins vegar verið andvígur útgöngu án samnings. 

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert