Hægriöfgar á afmæli heimsstyrjaldar

80 ár eru liðin frá því að Þjóðverjar réðust inn …
80 ár eru liðin frá því að Þjóðverjar réðust inn í Pólland, atburður sem markaði upphaf seinni heimsstyrjaldar. Þess var minnst í Póllandi í dag, og á sama tíma fóru fram sambandslandskosningar í Austur-Þýskalandi, þar sem þjóðernispopúlíski flokkurinn AfD bætti stórlega við sig. Frank-Walter Steinmeier forseti Þýskalands var í Póllandi í dag. AFP

„Þetta stríð var þýskur glæpur. Stríði lýkur þegar vopnin þagna, en afleiðingar þess eru arfur komandi kynslóða,“ sagði Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, við minningarathöfn í Varsjá í morgun. Minnst var fórnarlamba innrásar Þjóðverja í Pólland, sem var gerð 1. september 1939, fyrir áttatíu árum, aðgerð sem markaði upphaf seinni heimsstyrjaldar. 

Það væri svo sem ekki í frásögur færandi að forseti Þýskalands ávarpaði aðra eins samkomu, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að ekki aðeins var hann viðstaddur heldur einnig Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sjálf. Það er ekki alvanalegt, eins og Welt og Süddeutsche Zeitung benda á, að báðir þessir pólitísku leiðtogar Þýskalands ferðist saman til útlanda. Tilefnið þarf alltént að vera ærið, enda þessi ráðstöfun túlkuð sem óvenjuinnileg vinahót af Þýskalands hálfu í garð Póllands.

Bæði Merkel kanslari og Steinmeier forseti voru stödd í Póllandi …
Bæði Merkel kanslari og Steinmeier forseti voru stödd í Póllandi í dag í minningarathöfn. Það er óvenjumikið haft við, en erindið er ef til vill ærið. Þess má geta að þau bæði hafa lagt leið sína til Íslands í sumar, með undraskömmu millibili. Ekki komu þau þó bæði í einu. AFP

Á sama degi og þessara hörmunga er minnst gengu íbúar tveggja austurþýskra sambandslanda til, einmitt, sambandslandskosninga í dag. Sigurvegari þeirra kosninga, bæði í Saxlandi og í Brandenburg, er tvímælalaust hinn þjóðernispopúlíski öfgahægriflokkur AfD. Nýjustu tölur segja að sá hafi bætt við sig 18,4 prósentustigum í Saxlandi, þar sem 3,3 milljónir eru á kjörskrá, en 12,3 prósentustigum í Brandenborg, þar sem um tvær milljónir eru á kjörskrá. Síðast var kosið 2014.

AfD er sem sagt með 27,8% fylgi í Saxlandi og 23,7% fylgi í Brandenborg.

Nýtt tímabil í sögu AfD

Í hvorugu sambandslandinu nýtur AfD, Alternative für Deutschland, Valkostur fyrir Þýskaland, mests fylgis. Í Saxlandi eru Kristilegir demókratar, CDU, flokkur Angelu Merkel, efstir með 33,1%, þó að þeir hafi tapað 6,3 prósentum, og í Brandenburg eru sósíaldemókratar, SPD, enn efstir, með 26,6%, hafandi þó tapað 5,3%. AfD fylgir þó fast á hæla þessara flokka, í öðru sæti í báðum sambandslöndunum.

Og það er sigur, rétt eins og leiðtogi AfD í Saxlandi sagði: „AfD er sigurvegari þessara kosninga. Dagurinn í dag er sögulegur: Flokknum okkar hefur tekist að veikja stoðir höfuðstöðva kristilegra demókrata í Saxlandi,“ sagði leiðtoginn, Jörg Urban að nafni. 

Jörg Urban, leiðtogi AfD í Saxlandi, flytur ávarp eftir fyrstu …
Jörg Urban, leiðtogi AfD í Saxlandi, flytur ávarp eftir fyrstu útgönguspár, sem voru hans flokki ansi hagfelldar. Flokkurinn er í öðru sæti með 27,8% fylgi. Árið 2014 fékk hann 9,7%. AFP

Í báðum sambandslöndunum eru þessir tveir rótgrónu flokkar, CDU og SPD, að missa verulegt fylgi. Þýskir fjölmiðlar tala um endalok hefðbundnu þverskurðarstjórnmálaflokkanna, á þýsku Volksparteien, sem hafa haft tögl og hagldir í þessum sambandslöndum um árabil. Nú er það tímabil á enda og hafið nýtt tímabil í sögu AfD; flokks sem hefur boðað harðar aðgerðir gegn auknum straumi innflytjenda og verið gagnrýninn á Evrópusambandið. Þau leiðarstef flokksins eiga einna mestu fylgi að fagna í Austur-Þýskalandi, samanber framangreinda niðurstöðu, sem fáum kemur á óvart, enda eru þetta einfaldlega spár að rætast, og fylgið í takt við það fylgi sem AfD naut á þessum svæðum í allsherjarkosningum árið 2017.

Salim Samatou grínisti túlkar niðurstöðurnar sem endurkomu helst til kunnuglegs andlits:

View this post on Instagram

#landtagswahl #brandenburgwahl #sachsenwahl

A post shared by Salim Samatou (@salimsamatou) on Sep 1, 2019 at 10:08am PDT

Störf í stað umhverfismála

Þrátt fyrir afgerandi fylgisaukningu er AfD líklega ekki á leiðinni í stjórn, enda flestir flokkar búnir að sverja af sér samstarf við þá fyrirfram. Hefðbundnu flokkarnir, CDU og SPD, mynda ríkisstjórn Þýskalands og hafa gert áratugum saman, og afhroð í þessum kosningum hefði getað teflt stjórnarsamstarfinu í tvísýnu. Þeir héldu þó velli, leiðtogar flokkanna á þessu svæði hafa lýst kosningunum sem sigri þrátt fyrir allt, og samstarfið kann því að vera komið fyrir vind, eins og segir hjá Bloomberg.

Angela Merkel, sem eins og segir var stödd í Póllandi í dag að minnast illvirkja landa sinna á öldum áður, hefur ekki notið mikilla vinsælda meðal Austur-Þjóðverja undanfarið, þótt sjálf sé hún frá Brandenborg, eða uppalin þar. Í austurþýsku sambandslöndunum hefur verið töluvert harðara í ári frá falli múrsins 1989 og menn þar sopið seyðið af þjóðfélagsbreytingunum með meira afgerandi hætti en í vestri. Og það gerir menn þeim mun tortryggnari gagnvart hefðbundnum stjórnmálamönnum, sem hinum vonsviknu finnst ganga erinda vestursins frekar en hins.

Andreas Kalbitz, leiðtogi AfD í Brandenburg, flytur hér ávarp eftir …
Andreas Kalbitz, leiðtogi AfD í Brandenburg, flytur hér ávarp eftir góðan árangur. Til marks um það sem andstæðingar flokksins kalla vafasaman bakgrunn sumra leiðtoga innan hans, voru fluttar fréttir af því nýlega, að Kalbitz tók þátt í nýnasískum kröfugöngum í Aþenu árið 2007, ásamt meðlimum nýnasískra samtaka þýskra. Á spjaldinu er eitt af slagorðum flokksins: Endurheimtu land þitt, hol dir dein Land zurück. AFP

AfD hefur meðal annars mótmælt mjög áformum Merkel og ríkisstjórnar hennar um að láta af kolavinnslu í Þýskalandi, mikilvægri starfsgrein í austrinu, sem Merkel áformar í nafni umhverfisins, en AfD segir óábyrgt, fólkið þurfi að hafa vinnu. Með málflutningi af þessum toga, svo og fyrrgreindri orðræðu fjandsamlegri innflytjendum, hefur AfD, þessum nýja flokki, stofnuðum 2013, verulega tekist að hrista upp í þýskum stjórnmálum. Niðurstöður dagsins eru bara enn eitt skref í þeirri sigurgöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert