Tilbúnir að fara í mál vegna Brexit

Boris Johnson hefur sagt að hann vilji fremur liggja dauður …
Boris Johnson hefur sagt að hann vilji fremur liggja dauður ofan í skurði fremur en að óska eftir lengri fresti. AFP

Breskir þingmenn vinna nú að undirbúningi málshöfðunar komi til þess að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, neiti að óska eftir frekari frestun á Brexit. 

Á meðal þeirra sem standa að málinu eru fyrrverandi íhaldsþingmenn sem höfðu verið gerðir brottrækir úr flokknum. 

Frumvarp sem krefur Johnson til að óska eftir lengri fresti til að ná samningi vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, eða Brexit, bíður samþykkis Bretadrottningar. Bretar hafa frest til 31. október til að ná samkomulagi við Evrópusambandið, en Johnson hefur sagt að hann vilji fremur liggja dauður ofan í skurði en að biðja um lengri frest. 

Nú hafa breskir þingmenn leitað fulltingis lögmanna og eru þeir reiðubúnir að fara með málið fyrir dómstóla ef þörf krefur, að því er segir í breskum fjölmiðlum.

Stuðningur við frumvarpið er þverpólitískur. Í því er farið fram á að forsætisráðherrann framlengi frestinn þar til í janúar nema breska þingið nái að landa samkomulagi við ESB fyrir 19. október. Frumvarpið var samþykkt á þinginu í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert