Bresk stjórnvöld þurfi að axla ábyrgð á Brexit

Jean-Yves Le Drian utanríkisráðherra Frakklands er kominn með nóg af …
Jean-Yves Le Drian utanríkisráðherra Frakklands er kominn með nóg af vandræðum Breta og vill hafna því að veita þeim frekari fresti til þess að semja um útgöngu úr Evrópusambandinu. AFP

Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, er ekki hrifinn af þeirri hugmynd að veita Bretum frekari frest til þess að semja um útgöngu úr Evrópusambandinu. Hann segir að Bretar þurfi að axla ábyrgð á stöðunni sem upp er komin.

Lávarðadeild breska þingsins samþykkti á föstudaginn lagafrumvarp sem ætlað er að koma í veg fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings 31. október.

Sam­kvæmt lög­un­um er Bor­is John­son for­sæt­is­ráðherra skylt að óska eft­ir því við Evr­ópu­sam­bandið að út­göngu Bret­lands verði frestað um þrjá mánuði ef breska rík­is­stjórn­in og Evr­ópu­sam­bandið verða ekki búin að kom­ast að sam­komu­lagi um út­göng­una 19. októ­ber.

„Bretar segjast vilja finna aðrar lausnir á fyrirhugaðri útgöngu en við höfum ekki séð neinar hugmyndir að lausnum og því verðum við að segja nei!“ sagði Le Drian við fjölmiðla í Frakklandi.

„Bresk stjórnvöld verða að segja okkur hvernig þau vilja taka málið áfram. Þau þurfa að axla ábyrgð á aðstæðum,“ bætti hann við.

Til stóð að Bretland myndi ganga út úr Evrópusambandinu 29. mars síðastliðinn en hefur tvisvar óskað eftir fresti til að semja um útgöngusamning.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert