Mun berjast fyrir útgöngu án samnings

Dominic Cummings, ráðgjafi Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands.
Dominic Cummings, ráðgjafi Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. AFP

Ríkisstjórn Bretlands hefur hafið undirbúning fyrir þann möguleika að viðræður um samning við Evrópusambandið um útgöngu landsins úr sambandinu renni út í sandinn. Þetta herma heimildir breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Fyrr í dag hafði dagblaðið eftir heimildarmanni úr forsætisráðuneytinu að mögulegur útgöngusamningur við Evrópusambandið væri „í grundvallaratriðum útilokaður“ eftir símtal Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í morgun hvar Merkel sagðist meðal annars ekki geta stutt samning nema Norður-Írland yrði áfram innan tollabandalags sambandsins sem bresk stjórnvöld hafa hafnað.

Heimildir dagblaðsins herma enn fremur að ríkisstjórnin hafi í hyggju að berjast fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings í aðdraganda næstu þingkosninga sem búist er við að gætu orðið í nóvember. Vísað er í minnisblað sem talið er að hafi verið ritað af Dominic Cummings, aðalráðgjafa Johnsons.

Þar kemur fram að búist sé við að viðræður renni út í sandinn. Evrópusambandið muni reikna með að frekari tilslakanir verði gerðar af hálfu bresku ríkisstjórnarinnar en sú verði hins vegar ekki raunin. Verði tillögu ríkisstjórnarinnar að útgöngusamningi hafnað af sambandinu verði ekki um frekari viðræður að ræða.

Til þess að takast á við Brexit-flokkinn, sem kallað hefur eftir því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið án samnings, verði Íhaldsflokkurinn að fara í kosningabaráttuna með þau skilaboð að útgöngunni verði ekki frestað frekar og að af henni verði strax.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert