Segja almenna borgara hafa fallið

Kúrdar segja almenna borgara hafa fallið í loftárásum Tyrkja sem hófust í norðausturhluta Sýrlands fyrr í dag. Að minnsta kosti tveir létust og tveir særðust í loftárás tyrkneskra hersveita á bæinn Ras al-Ain, samkvæmt upplýsingum frá Sýrlensku lýðræðissveitunum (SDF). Þá hafa hundruð almennra borgara flúið yfir landamærin í norður Sýrlandi og yfir til Tyrklands. 

Þá hefur SDF heimildir fyrir því að 25 tyrkneskar herþotur hafi tekið þátt í árásinni og að skotmörkin hafi verið sextán talsins, víðs vegar á landamærunum. 

Recep Tayyip Er­dog­an Tyrklandsforseti greindi frá upphafi aðgerða Tyrklandshers á Twitter og seg­ir hann aðgerðirn­ar, sem hann kallar „Friðarvorið“, beinast gegn hryðju­verka­mönn­um á svæðinu í norður­hluta Sýr­lands. Ætl­un­in sé að koma í veg fyr­ir svæði hryðju­verka­manna rétt við tyrk­nesku landa­mær­in og að koma á friði á svæðinu. 

„Við munum virða landsvæði Sýrlands og frelsa íbúa svæðisins undan hryðjuverkamönnum,“ bætir Erdogan við færslu sína. 

Frönsk stjórnvöld hafa fordæmt innrásina og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, krefst þess að Tyrkir hætti öllum hernaðaraðgerðum á svæðinu þegar í stað. 

Amelie de Montchalin, ráðherra Evrópumála í Frakklandi, segir Frakka, Þjóðverja og Breta vera að undirbúa sameiginlega yfirlýsingu þar sem aðgerðir Tyrkja verða fordæmdar.


Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, treystir á að Tyrkir haldi aftur af sér og tryggi að þeir áfangar sem hafa náðst gegn vígamönnum íslamska ríkisins í Sýrlandi verði ekki að engu. Soltenberg greinir frá því í færslu á Twitter að hann muni ræða málin við Erdogan á föstudag.

Loftárásir Tyrkja beinast meðal annars gegn Kúrdum í bænum Ras …
Loftárásir Tyrkja beinast meðal annars gegn Kúrdum í bænum Ras al-Ain í Hasakeh-héraði í norðausturhluta Sýrlands. AFP
Hundruð almennra borgara hafa flúið yfir landamærin í norður Sýrlandi …
Hundruð almennra borgara hafa flúið yfir landamærin í norður Sýrlandi og yfir til Tyrklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert