Bandaríkin samþykktu ekki innrásina

Bærinn Tal Abyad eftir að Tyrkir gerðu árás í norðurhluta …
Bærinn Tal Abyad eftir að Tyrkir gerðu árás í norðurhluta Sýrlands í gær. AFP

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, neitar því að Bandaríkin hafi gefið grænt ljós á innrás Tyrklands í Sýrland. Pompeo ver ákvörðun Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um að flytja bandaríska hermenn frá landamærum Sýrlands við Tyrkland en ákvörðun forsetans hefur verið harðlega gagnrýnd. 

Frétt BBC

Tyrkir hófu í gær lofthernað og sprengjuárásir á yfirráðasvæði Kúrda í norðanverðu Sýrlandi til að auðvelda innrás sem Donald Trump Bandaríkjaforseti greiddi fyrir með því að fyrirskipa að bandarískir hermenn yrðu fluttir af svæðinu.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tilkynnti á Twitter að hernaðurinn væri hafinn og skömmu síðar gerðu herþotur og stórskotalið tyrkneska hersins árásir á stöðvar hersveita Kúrda meðfram landamærunum. Þúsundir íbúa bæja og þorpa á svæðinu flúðu frá heimkynnum sínum, segir í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag.

Almennir borgarar flýja árásir Tyrkja í Sýrlandi.
Almennir borgarar flýja árásir Tyrkja í Sýrlandi. AFP

Árásirnar höfðu verið yfirvofandi frá því Donald Trump tilkynnti um helgina, eftir símtal við Erdogan, að hann hefði ákveðið að fyrirskipa að bandarískir hermenn yrðu fluttir frá landamærunum að Tyrklandi og Tyrkir myndu hefja hernað í norðanverðu Sýrlandi. Ákvörðun Trumps vakti hörð viðbrögð á þingi Bandaríkjanna og margir þingmenn repúblikana gagnrýndu hana, þeirra á meðal leiðtogi þeirra í öldungadeildinni. Þeir lýstu ákvörðuninni sem svikum við hersveitir Kúrda, sem hafa verið mikilvægir bandamenn Bandaríkjahers í baráttunni gegn Ríki íslams, samtökum íslamista. Þeir óttast einnig að hernaður Tyrkja verði til þess að íslamistasamtökin rísi úr öskustónni með hryðjuverkum og árásum til að leggja aftur undir sig landsvæði sem herlið Kúrda náði af þeim.

„Biðjum fyrir kúrdískum bandamönnum okkar sem stjórn Trumps hefur hlaupist frá með skammarlegum hætti,“ sagði Lindsey Graham, áhrifamikill repúblikani í öldungadeild Bandaríkjaþings og einn af dyggustu stuðningsmönnum forsetans.

Trump sagði í gær að hann styddi ekki hernað Tyrkja og teldi hann vera „slæma hugmynd“.

Tyrkir hófu landhernað nokkrum klukkustundum eftir að loftárásirnar hófust. Bandalagið Sýrlensku lýðræðisöflin sagði í gær að minnst átta óbreyttir borgarar hefðu látið lífið í fyrstu árásum Tyrkja í grennd við bæina Tel Abyad og Ras al-Ain. Það hvatti Bandaríkin og fleiri lönd til að koma á flugbanni yfir landamærasvæðunum til að vernda íbúana og afstýra neyðarástandi.

Tyrkland á aðild að Atlantshafsbandalaginu. Framkvæmdastjóri þess, Jens Stoltenberg, sagði að Tyrkir hefðu lögmætra öryggishagsmuna að gæta en hvatti þá til að forðast aðgerðir sem ykju á blóðsúthellingarnar í Sýrlandi, mögnuðu spennuna og gætu valdið neyðarástandi meðal íbúanna. Hann varaði einnig við því að átök milli Tyrkja og Kúrda gætu stefnt baráttunni gegn Ríki íslams í hættu.

Leiðtogar margra ríkja heims létu í ljós áhyggjur af hernaði Tyrkja og boðað var til fundar um málið í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag. Stjórnvöld í Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi unnu að sameiginlegri yfirlýsingu þar sem hernaðurinn verður fordæmdur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert