Gæti tekið langan tíma að bera kennsl á líkin

Tæknimenn að störfum á vettvangi í dag. Ekki er vitað …
Tæknimenn að störfum á vettvangi í dag. Ekki er vitað hverjir þeir 39 einstaklingar sem fundust látnir í tengivagninum voru eða hvaðan þeir komu. AFP

Breska lögreglan reynir nú að bera kennsl á lík þeirra 39 einstaklinga sem fundust látnir í afturvagni vörubíls í Essex-héraði á Englandi síðustu nótt, en býst við að það ferli gæti tekið langan tíma. Tengivagninn hafði komið sjóleiðina frá Zeebrugge í Belgíu til stórskipahafnarinnar í Purfleet við mynni Thames-árinnar skömmu eftir miðnætti.

Þangað var tengivagninn sóttur af 25 ára gömlum norðurírskum karlmanni, Mo Robinson. Skömmu eftir að hann hélt af stað með vagninn uppgötvuðu sjúkraflutningamenn – og það er ansi óljóst af fregnum breskra fjölmiðla hvernig nákvæmlega það kom í ljós – að 39 lík væru í afturvagninum. Lögregla segir að þeir látnu hafi allir verið fullorðnir, nema einn sem sennilega var á táningsaldri.

Robinson var handtekinn og hefur verið yfirheyrður í dag, en samkvæmt frétt BBC um málið hefur lögreglan á Norður-Írlandi framkvæmt húsleitir á tveimur stöðum sem Robinson hefur tengsl við. Óljóst er þó hvort hann hafi vitað af því að í farminum sem hann var að sækja voru 39 manneskjur.

Vörubílnum var ekið í burtu í dag, með líkin 39 …
Vörubílnum var ekið í burtu í dag, með líkin 39 enn innanborðs. AFP

Afturvagninn skráður í Búlgaríu

Fréttaritari BBC sem var þarna á staðnum í dag lýsti því að lögreglumenn hefðu lotið höfði í virðingarskyni við þá látnu er vörubílnum var ekið á brott í dag og augljóst hefði verið að mörgum þeirra hefði verið mikið niðri fyrir sökum þess sem þeir hefðu séð við störf sín á vettvangi.

Vörubíllinn er skráður í Búlgaríu, á nafn fyrirtækis sem er í eigu írsks ríkisborgara, samkvæmt því sem búlgörsk yfirvöld hafa gefið út. Yfirlýsingu þeirra fylgdi að „afar ólíklegt“ væri að þeir sem voru í vagninum hefðu verið búlgarskir ríkisborgarar.

Breskir stjórnmálamenn hafa tjáð sig um þetta sorglega mál í dag, en þetta er stærsti líkfundur sem þessi í Bretlandi frá því árið 2000, er 58 kínverskir ríkisborgarar fundust í tengivagni við höfnina í Dover. Boris Johnson forsætisráðherra sagði að honum hefði þótt hryllilegt að heyra af málinu.

Fréttaritari BBC skrifaði að mörgum lögregluþjónum hefði verið mikið niðri …
Fréttaritari BBC skrifaði að mörgum lögregluþjónum hefði verið mikið niðri fyrir sökum þess sem þeir hefðu séð við störf sín á vettvangi í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert