Óvíst hvenær og hvernig Greta fer heim

Greta Thunberg hefur verið á ferð en ekki flugi undanfarna …
Greta Thunberg hefur verið á ferð en ekki flugi undanfarna daga og vikur. AFP

Óvíst er hvenær og hvernig aðgerðasinninn Greta Thunberg kemst aftur heim til Svíþjóðar en hún hefur undanfarna daga og vikur dvalið vestanhafs. Hún hélt erindi á lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna í síðasta mánuði og hefur fundað með ráðamönnum um loftslagsvána.

Fram kemur á Instagram-síðu Thunberg að hún muni taka þátt í loftslagsverkfalli í Vancouver í Kanada á morgun en hún hefur haldið loftslagsverkfall alla föstudaga í rúmlega ár. Hún hvetur íbúa Vancouver til að safnast saman fyrir utan listagallerí borgarinnar.

Thunberg segir að hún reyni að koma á eins marga staði og mögulegt er. Því miður hafi hún ekki tíma til að heimsækja alla. Eins og áður hefur komið fram ferðast hún ekki með flugvél af umhverfisástæðum en hún hefur ferðast um Bandaríkin á rafmagnsbíl.

Áður hafði komið fram að Thunberg ætlaði landleiðina til Síle frá norðurhluta Ameríku þar sem hugmyndin er að hún verði viðstödd loftslagsráðstefnu í Santiago í desember. 

Thunberg mótmælir ásamt hópi fólks, yfirleitt ungu fólki, alla föstudaga …
Thunberg mótmælir ásamt hópi fólks, yfirleitt ungu fólki, alla föstudaga hvar sem hún er stödd. AFP

„Greta ferðast ekki með flugvélum þannig að hún þarf að komast til Síle og aftur til Svíþjóðar með öðrum leiðum,“ sagði talsmaður hennar fyrr í mánuðinum. Óvíst er hvernig ferðalögin verð útfærð.

Thunberg ferðaðist með kapp­sigl­ing­ar­skút­unni Malizia II yfir Atlantshafið í september frá Svíþjóð til New York. Líklegt þykir að hún noti svipaðan ferðamáta fyrir heimferðina en ekki er ljóst hvenær af henni verður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert