Hlédrægi draugurinn Baghdadi

Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Ríkis íslam, var alla tíð hlédrægur …
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Ríkis íslam, var alla tíð hlédrægur og sást sjaldan opinberlega. Myndskeið frá árinu 2014 þar sem hann predikar í al-Nuri-moskunni í Mósúl í Ramadan-mánuði er líklega með eftirtektarverðustu augnablikum úr lífi hans, en þar lýsti hann sjálfan sig trúarleiðtoga allra múslima heimsins og kallaði eftir stuðningi múslima um allan heim. AFP

Heil­agi stríðsmaðurinn eða jí­hadist­inn Abu Bakr al-Baghdadi hafði yfirumsjón með blóði drifnu risi og falli kalíf­a­dæmi Rík­is íslams. Leiðtoginn, sem var felldur í árás Bandaríkjahers á fylgsni hans í Sýrlandi í gærkvöldi, lét alla tíð lítið fyrir sér fara. Svo lítið að hann gekk undir viðurnefninu „draugurinn“. 

Baghdadi fæddist sem Ibrahim Awad al-Badri árið 1971 í Samarra í vesturhluta Íraks. Hann var einlægur knattspyrnuaðdáandi í æsku sem kom ef til vill niður á námsárangrinum, en hann komst ekki inn í laganám þegar hann sóttist eftir því. Þá hugðist hann snúa sér að hermennsku en reyndist ekki með nægilega góða sjón. Hann hélt því til borgarinnar Baghdad þar sem hann lagði stund á nám í íslömskum fræðum. 

Var ekki talinn hættulegur

Eftir innrás Bandaríkjanna í Írak 2003 stofnaði Baghdadi, líkt og hann kaus að kalla sig, sín eigin uppreisnarsamtök sem náðu þó aldrei flugi. Hann var handtekinn ári seinna af Bandaríkjamönnum í suðurhluta Íraks og haldið í Bucca-fangabúðunum. Baghdadi var alla tíð hljóðlátur og hlédrægur og það kom sér vel frá upphafi þar sem hann var látinn laus úr fangabúðunum í desember 2004 þar sem hann var ekki talinn hættulegur. 

For­ráðamenn fang­els­is­ins töldu meira að segja að Bag­hda­di hefði já­kvæð áhrif á aðra fanga og var hann feng­inn til þess að leysa úr ágrein­ingi milli fanga.

Líkt og komið hef­ur í ljós á und­an­förn­um árum voru fang­els­in í Írak á þess­um tíma gróðarstía harðlínu-íslam­ista og marg­ir af hryðju­verka­mönn­um dags­ins í dag komust í kynni við öfga­menn í fang­els­um sem fengu óáreitt­ir að koma áróðri sín­um til skila. 

Árið 2013 endurvakti Baghdadi Ríki íslams í Írak (ISI) sem átti að sameina Al-Qaeda og aðra hryðjuverkahópa múslima. Leiðtogar samtakanna voru drepnir af Bandaríkjaher árið 2010 og uppreisnarmennirnir hörfuðu og urðu æ einangraðari. Baghdadi tók að sér að leiða leifar af þessum uppreisnarhópum og var hann með sitt eigið markmið: Að stofna kalífadæmi. 

Predikaði við al-Nuri-moskuna en dró sig svo í hlé

Í júní árið 2014 brut­ust víga­menn hryðju­verka­sam­tak­anna Ríkis íslams til valda í Mósúl, annarri stærstu borg Íraks. Bag­hda­di lýsti í kjölfarið yfir stofn­un kalíf­a­dæm­is. Sveit­ir víga­mann­anna höfðu ráðist inn í Írak frá Sýr­landi og náðu um þriðjungi lands­ins á sitt vald á nokkr­um mánuðum. 

Í ein­földu máli var kalíf­a­dæmið til forna ríki mús­lima á öld­un­um eft­ir að Múhameð spá­maður lést árið 632. Hann hafði ekki fyr­ir­skipað hver skyldi verða eft­ir­maður hans og hóf­ust þá deil­ur um hver fengi það hlut­verk. Það varð til þess að múslim­ar skipt­u sér í tvær fylk­ing­ar; súnníta og sjíta. Þessi skipt­ing hef­ur hald­ist síðan eða í tæp­lega 1400 ár. Í dag eru súnnít­ar um 90% allra mús­lima í heim­in­um. Sjít­ar hafa verið ráðandi í Íran, Írak og Jemen en súnnít­ar í öðrum ríkj­um múslima. Saga Ríkis íslams hefur einkennst af blóðugri baráttu í þeim tilgangi að reyna að koma á fót kalíf­a­dæmi í norður­hluta Íraks og Sýr­lands.

Í júní árið 2014 brut­ust víga­menn hryðju­verka­sam­tak­anna Ríkis íslams til …
Í júní árið 2014 brut­ust víga­menn hryðju­verka­sam­tak­anna Ríkis íslams til valda í Mósúl, annarri stærstu borg Íraks. Bag­hda­di lýsti í kjöldarið yfir stofn­un kalíf­a­dæm­is. Svona er umhorfs við moskuna í dag. AFP

Baghdadi lét áfram lítið fyrir sér fara að undanskildu myndskeiði þar sem hann sést predika í al-Nuri-moskunni í Mósúl eftir að íslamska ríkið hafði hertekið borgina. Í myndbandinu lýsti Baghdadi sjálfan sig trúarleiðtoga allra múslima heimsins og kallaði eftir stuðningi múslima um allan heim. 

Að öðru leyti hefur Baghdadi aðallega látið á sér bera í hljóðupptökum til stuðningsmanna sinna eftir að hann lýsti yfir stofnun kalífadæmisins. Síðan þá hafa marg­ar fregn­ir borist af því að hann hefði verið drep­inn eða hann særst. Rúss­neski her­inn taldi til að mynda  hugs­an­legt í júní 2017 að leiðtoginn hefði hafi fallið í loft­árás rúss­neskra orr­ustuflug­véla í ná­grenni borg­ar­inn­ar Raqa í Sýr­landi.

Birtist síðast opinberlega í apríl

Frá 2016 lofaði utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna 25 milljóna dollara verðlaunafé hverjum þeim sem bjó yfir upplýsingum sem gætu leitt til handtöku eða dauða Baghdadi. Eftir því sem völd Ríkis íslams jukust dró Baghdadi sig meira í hlé. Þegar mest lét réði Ríki íslams yfir um 90 þúsund fer­kíló­metr­um landsvæðis í Írak.

Í mars á þessu ári lýstu sýr­lensku lýðræðisöfl­in (SDF), sem Kúr­d­ar leiða, yfir sigri á Ríki íslams eft­ir að síðustu liðsmenn hryðju­verka­sam­tak­anna voru brotn­ir á bak aft­ur í síðasta vígi þeirra í aust­ur­hluta Sýr­lands. Mánuði síðar birtist Baghdadi opinber­lega í áróðurs­mynd­bandi sem hryðju­verka­sam­tök­in sendu frá sér í apríl. Var það í fyrsta sinn í fimm ár sem hann birtist opinberlega og skartaði hann þá rauðu og gráu skeggi. 

Baghdadi sagði aðgerðir Rík­is íslams gegn Vest­ur­lönd­um vera hluta af „langri bar­áttu“ og að sam­tök­in myndu hefna sín vegna þeirra liðsmanna sem hefðu verið drepn­ir. „Það verða fleiri aðgerðir eft­ir þenn­an bar­daga,“ sagði hann.

Leiðtogi Rík­is íslams, Abu Bakr al-Bag­hda­di, í áróðurs­mynd­bandi sem hryðju­verka­sam­tök­in …
Leiðtogi Rík­is íslams, Abu Bakr al-Bag­hda­di, í áróðurs­mynd­bandi sem hryðju­verka­sam­tök­in sendu frá sér í lok apríl. AFP

Síðasta upp­tak­an með rödd hans heyrðist í ág­úst síðastliðnum en Baghdadi hefur annars haldið sig til hlés. Það var svo í nótt sem Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði í færslu á Twitter að „nokkuð rosa­legt hafi verið að ger­ast!“ Á blaðamannafundi í dag útskýrði hann svo mál sitt frekar. 

Hann sagði Baghdadi hafa sprengt sig í loft upp þegar Banda­ríkja­menn gerðu árás á fylgsni hans í Sýr­landi í gær­kvöldi. For­set­inn sagði að Bag­hda­di hefði verið króaður af, grát­andi og öskr­andi, og þar hefði hann sprengt sig og þrjú ung börn sín í loft upp. Fjöl­miðlar vest­an­hafs greina frá því að Bag­hda­di hafi alltaf haft sprengju­vesti við hönd­ina af ótta við að vera hand­samaður.

Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa brugðist við láti Baghdadi. „Andlát Baghdadi skiptir sköpum í baráttu okkar gegn hryðjuverkum,“ segir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, en hann segir baráttuna gegn hinum illu öflum Ríki íslams ekki lokið, síður en svo. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert