Páfi segir kjarnavopn „ósiðleg“

Frans páfi tilkynnti í dag að hann muni lýsa kjarnavopnum og notkun þeirra sem „ósiðlegri“ í nýrri handbók kaþólsku kirkjunnar. Tilkynnti páfi þetta eftir að hafa heimsótt japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki, sem urðu fyrir mannskæðum kjarnavopnaárásum í heimstyrjöldinni síðari.

Alls kostuðu sprengjurnar sem bandaríski herinn varpaði á borgirnar 224.000 manns lífið, en Hiroshima og Nagasagi eru einu þéttbýlissvæðin sem kjarnavopnum hefur verið beint gegn.

„Ég hef sagt að notkun kjarnavopna er ósiðleg,“ sagði páfi við fréttamenn í flugvélinni á leiðinn aftur til Rómar. „Þetta verður að fara í trúfræðslukver kaþólsku kirkjunnar. „Það er ekki bara notkunin heldur líka eignin,“ bætti páfi við og kvað „brjálsemi ríkisstjórna geta eyðilagt mannkynið.“

Þá gagnrýndi páfi alþjóðastofnanir á borð við Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir að grípa ekki fastar í taumana til að fækka vopnum og forða stríðum. Þá kenndi hann einnig um „hræsni þeirra sem framleiða vopnin“ og vísaði þar til kristinna ríkja í Evrópu.

„Þau tala um frið og lifa fyrir vopnin. Slíkt er kallað hræsni,“ sagði páfi. „Þjóð verður að hafa hugrekki til að segjast ekki geta talað um frið af því að hún hagnist mikið á vopnaframleiðslu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert