Einar sá fólk flýja frá London Bridge

Byggingum á svæðinu hefur verið lokað og hafa Einar Örn …
Byggingum á svæðinu hefur verið lokað og hafa Einar Örn og vinnufélagar hans ekki fengið að halda heim á leið. AFP

Ungur íslendingur, Einar Örn, varð vitni að atburðarásinni við London Bridge fyrr í dag. Einar starfar sem tæknimaður hjá útvarpsstöðinni News UK og var í matarhléi úti á svölum  turnbyggingar útvarpsstöðvarinnar, við suðurenda brúarinnar. Árásin átti sér stað við norðurendann.

„Sólin skein glatt og ég hafði á orði við kollega minn hvað veðrið væri afskaplega gott,“ segir Einar í viðtali við Mbl.is. „Svo verðum við varir við einhvern óróleika á brúnni og heyrum fólk hrópa til nærstaddra að forða sér í burtu. Þá heyrðust tveir hvellir, sem við héldum í fyrstu að væru flugeldar. Svo fylgdu fleiri skothvellir í kjölfarið og fyrr en varði var fjöldi lögreglubifreiða kominn á staðinn.“

Einar Örn á skrifstofu sinni þar sem hann bíður núna …
Einar Örn á skrifstofu sinni þar sem hann bíður núna eftir því að almenningi verði hleypt út úr húsum á svæðinu næst vettvangi árásarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Einar birti upptöku á Twitter þar sem sjá má fólk flýja af brúnni. Alþjóðlegir fréttamiðlar hafa deilt upptökunni í dag og tekið viðtöl við Einar um það sem hann sá.

Einar situr enn fastur í byggingunni ásamt um 2.400 manns sem þar starfa, enda hefur svæðinu verið lokað af öryggisástæðum. „Héðan fer enginn út og enginn inn,“ segir hann en þegar blaðamaður náði af honum tali hafði lokunin staðið yfir í fjóra tíma. Einar veit ekki hvenær starfsfólki á svæðinu verður leyft að snúa aftur heim til sín. „Fólk sem hefur verið hér lengur segir mér að í hryðjuverkaárásinni 2017 hér á brúnni og á Borough Market hafi byggingum verið lokað í 18 klukkustundir en vonandi verður okkur hleypt út fyrr en það.“

Að sögn Einars eru kollegar hans rólegir yfir árásinni, en ólmir að komast aftur heim til sín.

Nýjustu fréttir herma að auk árásarmannsins hafi ein manneskja látist af sárum sínum á spítala. Þá segir Guardian að einhver slys hafi orðið á fólki þegar vegfarendur flúðu vettvang árásarinnar í ofboði.

Uppfært kl. 20:03: BBC hefur eftir lögreglunni í Lundúnum að auk árásarmannsins, sem lögreglumenn felldu, hafi tveir almennir borgar látist. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert