Segja Tesla ógn við þjóðaröryggi

Ein hinna nýju F35A-þotna norska flughersins sem verða 52 þegar …
Ein hinna nýju F35A-þotna norska flughersins sem verða 52 þegar Lockheed Martin-verksmiðjurnar hafa afhent þær síðustu árið 2024. Stjórnendur Ørland-herflugstöðvarinnar eru ekki hrifnir af Tesla-bifreiðum nálægt stöðinni og telja upptökumöguleika „sentry mode“-kerfisins ógn við þjóðaröryggi. Ljósmynd/Torbjørn Kjosvold/Norski flugherinn

Þótt svokallaðar sjálfvaktandi bifreiðar séu tæknilegt rothögg, töfrateppi þæginda og veiti einhverjum öryggiskennd eru þær sums staðar að verða þyrnir í augum vörslumanna þjóðaröryggis, svo sem í Noregi.

„Eftir áratug gæti Noregur dregist inn í vopnuð átök eða styrjöld. Köstum við til höndum í öryggismálum dagsins í dag erum við í vanda stödd komi til slíks.“ Þetta segir Michael Baas Bottenvik-Hartmann, næstráðandi Ørland-herflugstöðvarinnar í Þrændalögum, heimavallar krúnudjásna norska flughersins, tólf glænýrra F35A-orrustuþotna sem flogið hefur verið í nokkrum afhendingarhollum frá verksmiðjum Lockheed Martin í Texas frá haustinu 2017.

Innan girðinga Ørland-stöðvarinnar geymir flugherinn fjölda hernaðarleyndarmála, upplýsingar sem falla undir nýju þjóðaröryggislögin (n. Lov om nasjonal sikkerhet) sem tóku gildi í Noregi 1. janúar á þessu ári.

Einfalt að kortleggja allar athafnir

Bottenvik-Hartmann og fleiri stjórnendur stöðvarinnar óttast að komist nógu margar myndir og myndskeið af daglegu lífi í og við flugstöðina í rangar hendur verði hægt að kortleggja flestar athafnir þar. Þetta sé tiltölulega einfalt mál nú til dags, ekki þurfi annað en bifreið með öllum nýjasta búnaði, sagði næstráðandinn í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í morgun.

Eftir að Tesla-verksmiðjurnar hleyptu fyrr á þessu ári af stokkunum „sentry mode“-kerfinu, sem gerir umráðamanni slíkrar bifreiðar kleift að taka upp myndskeið af öllu nánasta umhverfi hennar viðstöðulaust, íhuguðu stjórnendur í Ørland í fullri alvöru að banna Tesla-bifreiðar nálægt stöðinni. Sú umræða var tekin í ágúst en ekki varð af banninu.

Hins vegar er öllu starfsfólki stöðvarinnar, sem ekur um á Tesla og nokkrum öðrum bifreiðategundum, nú gert að leggja fararskjótum sínum á ákveðnum bílastæðum þaðan sem skyggni er takmarkað. „Sumir þurfa að labba aðeins lengra núna,“ segir Bottenvik-Hartmann við NRK.

Hann tekur það fram að auðvitað beri flugherinn traust til síns starfsfólks. „Þetta snýst ekki um einstaklinga, heldur um öryggi í samfélaginu. Vandamálið er ekki að myndskeið séu vistuð í bifreiðunum, vandamálið er þegar farið er að vista þau í gagnaskýjum [e. cloud data protection, n. skylagring]. Það vekur okkur ugg,“ útskýrir Bottenvik-Hartmann.

Tók óvart upp sex tíma myndskeið með bílnum

NRK fjallaði í sumar um þann njósnamöguleika sem Tesla-bifreiðar bjóða upp á og sagði frá Tesla-eigandanum Stian Walgermo sem tók óvart upp alla umferð akandi og gangandi fyrir utan vinnustað hans í sex klukkustundir, efni sem rúmaðist á örsmáum USB-minnislykli. Ranveig Fjellheim Tunaal, lögfræðingur sem sérhæfir sig í persónuverndarlöggjöf á vegum fyrirtækisins Sticos, sagði þá að samkvæmt norskri löggjöf skyldi upplýsa fólk um hvenær væri verið að taka myndskeið af því, til hvers skyldi nota það myndskeið og hve lengi það skyldi geymt. „Einkaaðilum er heimilt að vakta eigið húsnæði og lóð með upptöku, en slík upptaka er ekki leyfileg á opinberum stöðum, það gildir einnig um upptökur frá bifreiðum,“ sagði Tunaal við NRK.

Nora Wisløff Egenæs, sem svarar fyrirspurn NRK fyrir hönd Tesla Norge, segir einfalt mál að taka „sentry mode“-kerfið úr sambandi. „Þetta er valfrjálst kerfi. Eini möguleikinn til að vista upptökurnar er á USB-lykli inni í bílnum. Þar er ökumaðurinn sjálfur ábyrgur fyrir því að fara eftir þeim lögum og reglum sem í gildi eru á hverjum stað,“ skrifar Egenæs í tölvupósti og bætir því við að búnaður bifreiðanna sé mun takmarkaðri en daglegur útbúnaður á borð við snjallsíma, myndbandsupptökuvélar eða dróna með myndavélabúnaði.

IOC, FOC og QRA

Þegar allar F35A-þoturnar verða komnar til Noregs frá Lockheed Martin-verksmiðjunum árið 2024 verða þær 52 talsins og var verðmiðinn miðað við upphaflegt tilboð 69,7 milljarðar norskra króna, tæpir 924 milljarðar íslenskra miðað við gengi dagsins í dag. Reyndar var þó greint frá því fyrr á árinu að þær færu hugsanlega 16 milljörðum norskra króna fram úr þeirri kostnaðaráætlun.

Nýju þoturnar munu á nokkrum árum koma í stað flota F-16 Fighting Falcon-véla norska flughersins sem óhætt er að segja að sé kominn af léttasta skeiði því nánast allar vélarnar eru tæplega 40 ára gamlar, utan tveggja sem afhentar voru 1989, og hafa krafist rándýrs viðhalds og uppfærslna árum saman. Stefnt er að því að notkun F-16 í Noregi verði hætt árið 2021.

Frá Ørland-herflugstöðinni í Þrændalögum þar sem nú eru engar tæplega …
Frá Ørland-herflugstöðinni í Þrændalögum þar sem nú eru engar tæplega fertugar F-16-þotur lengur heldur hafa glænýjar F-35A-þotur 332. flugsveitarinnar leyst þær af hólmi. Ljósmynd/Torbjørn Kjosvold/Norski flugherinn

Allar F-16-vélar landsins eru nú komnar til flugherstöðvarinnar í Bodø og hefur hin gamalgróna 338. flugsveit verið lögð niður en arftaki hennar er 332. sveitin í Ørland sem skipuð er F35A-þotum. Þeim hefur þó ekki verið flogið eins mikið og efni stóðu til þar sem varahlutalager flughersins er enn nokkuð ábótavant, en er þó gert ráð fyrir því að nú um áramót nái norski flugherinn því sem kallast IOC (e. initial operational capability) með nýju vélunum, það er að segja að þær teljist hafa náð lágmarksvarnarstyrk miðað við kröfur um loftvarnir Noregs.

Næsta stig á þeirri vegferð kallast svo FOC (e. full operational capability) og árið 2022 blasir loks enn ein skammstöfunin við sem verður þegar norski flugherinn tekur á ný við QRA-vaktinni (e. quick reaction alert) sem Atlantshafsbandalagið NATO fer með fyrir Noreg meðan á þessum kynslóðaskiptum flugflotans stendur. Munu F35A-þotur þá standa sína QRA-vakt frá flugstöðinni á Evenes í Nordland-fylki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert