Hluti af þjóðareinkenni að minnast glæpa nasista

Angela Merkel ásamt pólska forsætisráðherranum Mateusz Morawiecki í Auschwitz-Birkenau.
Angela Merkel ásamt pólska forsætisráðherranum Mateusz Morawiecki í Auschwitz-Birkenau. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir það vera hluta af þýsku þjóðareinkenni að minnast glæpa nasista í síðari heimsstyrjöldinni.

„Að minnast glæpanna […] er ábyrgð sem tekur engan enda. Það er ekki hægt að aðskilja það frá þjóðinni okkar. Að vera meðvituð um þessa ábyrgð er hluti af okkar þjóðareinkenni,“ sagði Merkel er hún heimsótti útrýmingarbúðirnar fyrrverandi í Auschwitz í Póllandi.

Hún sagði þessa meðvitund einnig vera hluta af sjálfsskilningi Þjóðverja sem upplýsts og frjáls þjóðfélags, lýðræðis sem sé stjórnað af lögum. Sagði hún Auschwitz „krefjast þess að við höldum minningunni á lofti“.

Angela Merkel og Mateusz Morawiecki hjá minnisvarða um þá sem …
Angela Merkel og Mateusz Morawiecki hjá minnisvarða um þá sem létust. AFP

Skilaboðunum var beint hægriöfgamanna. Félagar þýska flokksins AfD halda því fram að ekki eigi að afsaka eins mikið og gert er fortíð Þýskalands í tengslum við nasismann heldur eigi frekar að fagna öðrum atburðum í sögu þjóðarinnar.

Merkel lýsti „djúpri skömm“ Þjóðverja vegna þess sem gerðist í Auschwitz-Birkenau, þar sem um ein milljón gyðinga var drepin af nasistum á árunum 1940 til 1945.

„Það eru engin orð sem geta lýst sorg okkar,“ sagði hún.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert