Kjarnorkuafvopnun ekki á dagskrá

Donald Trump Bandaríkjaforseti stígur inn fyrir landamæri Norður-Kóreu á fundi …
Donald Trump Bandaríkjaforseti stígur inn fyrir landamæri Norður-Kóreu á fundi þeirra Kim Jong-Un fyrr á árinu. AFP

Ríkissjónvarpsstöð Norður-Kóreu greindi frá því í dag að stjórnvöld hefðu framkvæmt „mjög mikilvæga eldflaugatilraun“ á Sohae-skotpallinum, skammt sunnan landamæranna að Kína.

„Kjarnorkuafvopnun er ekki lengur á samningaborðinu,“ segir Kim Song, sendiherra Norður-Kóreu gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Ekki sé þörf á löngum viðræðum við Bandaríkin enda séu yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um viðræður aðeins ætlaðar til heimabrúks í bandarískri pólitík.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafa þrívegis fundað um mögulega kjarnorkuafvopnun Kóreuríkisins, nú síðast í sumar á hlutlausa beltinu milli Kóreuríkjanna þar sem leiðtogarnir undirrituðu yfirlýsingu um að unnið skyldi að kjarnorkuafvopnun ríkisins, en meðal skilyrða sem Norður-Kóreumenn settu var að Bandaríkin létu af öllum þvingunaraðgerðum gagnvart ríkinu.

Norðurkóresk stjórnvöld höfðu gefið Bandaríkjunum út árið til að koma með hugmyndir að samkomulagi um afvopnun, sem fæli meðal annars í sér að tollum yrði aflétt af norðurkóreskum varningi, en enn bólar ekkert á þeim tillögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert