Fimmtungur kjósenda óákveðinn

Boris Johnson forsætisráðherra á ferð og flugi í aðdraganda þingkosninga. …
Boris Johnson forsætisráðherra á ferð og flugi í aðdraganda þingkosninga. Um fimmtungur kjósenda á eftir að gera upp hug sinn. AFP

Bretar kjósa til neðri deild­ar þings­ins eftir þrjá daga og eru kosn­ing­arn­ar mjög tví­sýn­ar ef marka má niður­stöður nýj­ustu skoðanakann­ana. Flest hef­ur þótt benda til þess að Íhalds­flokk­ur Bor­is Johnson, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, muni ná meiri­hluta í neðri deild­inni sem flokk­ur­inn hef­ur ekki haft síðan í kosn­ing­un­um 2017. 

Enn er fimmtungur kjósenda óákveðinn og eru það ekki síst þeirra atkvæða sem skipta máli. Frambjóðendur eru nú á lokametrunum að kynna sig og stefnumálin. 

Boris Johnson forsætisráðherra er á ferðalagi um Norðaustur-England þar sem hann ætlar að reyna að sannfæra Brexit-sinna sem styðja Verkamannaflokkinn um að flokkurinn og þingið hafi brugðist í útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Johnson byrjaði daginn hins vegar á fiskmarkaði í Grimsby í viðeigandi útbúnaði. 

Boris Johnson byrjaði daginn á fiskmarkaði í Grimsby.
Boris Johnson byrjaði daginn á fiskmarkaði í Grimsby. AFP

Á sama tíma hyggst John McDonnell, skuggaráðherra Verkamannaflokksins, kynna áherslumál flokksins fyrstu 100 daga nýs kjörtímabils og heitir flokkurinn því að binda enda á efnahagsþrengingar á þeim tíma, verði flokkurinn í ríkisstjórn. 

John McDonnell, skuggaráðherra Verkamannaflokksins, heitir því að flokkurinnmuni binda enda …
John McDonnell, skuggaráðherra Verkamannaflokksins, heitir því að flokkurinnmuni binda enda á efnahagsþrengingar á fyrstu 100 dögum nýs kjörtímabils, verði flokkurinn í ríkisstjórn. AFP

„Gæti hakað í hvaða box sem er“

BBC hefur útbúið leiðarvísi fyrir kjósendur, ekki síst þá sem eiga eftir að gera upp hug sinn, þar sem farið er yfir öll stefnumál flokkanna, allt frá loftslagsmálum til geðheilsu. 

Nokkrir óákveðnir kjósendur tóku þátt í pallborðsumræðum í morgunþætti Victoriu Derbyshire á BBC 2 í morgun. Rob, sem á enn eftir að gera upp hug sinn, vill að einhver sannfæri hann um að raunverulegar breytingar séu mögulegar. Hann segir kosningabaráttuna hafa valdið sér vonbrigðum og að verstu hliðar bandarískra stjórnmála hafi rutt sér til rúms í Bretlandi. 

„Ég gæti hakað í hvaða box sem er og gengið út,“ segir Jamal, Lundúnabúi sem starfar með ungmennum. Baráttan gegn ofbeldisglæpum er honum ofarlega í huga en enginn flokkur hefur borið af í þeim efnum að hans mati. 

 


 

Amelia, sem ætlar að hefja háskólanám á næsta ári, horfir til Verkamannaflokksins sem hyggst lækka skólagjöld. Hún segist hins vegar ekki viss um hvort hún geti treyst Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins, til að uppfylla öll þau kosningaloforð sem hann hefur gefið. 

Rosie Campbell, prófessor við King´s College, segir óákveðna kjósendur geta sett svip sinn á kosningarnar og niðurstöður þeirra á fimmtudag. Kosningarannsóknir sýna að flokkshollusta breskra kjósenda fer minnkandi.

Árið 1966 kusu aðeins 13% kjósenda annan flokk en í síðustu kosningum en árið 2015 var hlutfallið 43%. Í síðustu kosningnum árið 2017 var hlutfallið 33% og Campbell segir að búast megi við öðru eins á fimmtudaginn. Þá er ómögulegt að segja hver áhrif Brexit verða. 

Hér má fylgjast með beinni lýsingu BBC þar sem farið er yfir það helsta í kosningabaráttunni í dag. 

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, á kosningafundi í Llanfairfechan í norðvesturhluta …
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, á kosningafundi í Llanfairfechan í norðvesturhluta Wales í gær. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert