Mun Boeing stöðva framleiðslu 737 MAX?

Boeing 737 MAX-vélarnar voru kyrr­sett­ar í mars síðastliðnum og síðan …
Boeing 737 MAX-vélarnar voru kyrr­sett­ar í mars síðastliðnum og síðan þá hafa Boeing-verksmiðjurnar dregið úr framleiðslunni og framleitt 42 vélar á mánuði í stað 52. AFP

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing gæti hætt að framleiða 737 MAX-vélar eða dregið framleiðsluna enn meira saman en gert hefur verið frá því vélarnar voru kyrrsettar í kjölfar tveggja mannskæðra slysa í október 2018 og mars á þessu ári. 

Frá þessu greinir Wall Street Journal en þar er sagt að von sé á tilkynningu frá Boeing í dag. Talið er að framleiðslu á 737-MAX vélum verði alfarið hætt eða hún dregin saman þar til kyrrsetningu vélanna verður aflétt. Haft er eftir ónefndum heimildarmönnum sem þekkja til innan Boeing að stjórn stjórn fyrirtækisins telji framleiðsluhlé hagstæðasta kostinn í stöðunni sem upp er komin. 

Vélarnar voru kyrr­sett­ar í mars síðastliðnum og síðan þá hafa Boeing-verksmiðjurnar dregið úr framleiðslunni og framleitt 42 vélar á mánuði í stað 52. 

Á fimmtudag fundaði Steve Dickson, forstjóri Flugmálastjórnar Bandaríkjanna, með Dennis Muilenburg, forstjóra Boeing, þar sem hann viðraði áhyggjur sínar af því að Boeing væri að flýta sér of hratt við að koma vélunum aftur í loftið. Upp­haf­lega áttu flug­vél­arn­ar að fara í loft í des­em­ber en á fundinum viðurkenndi Muilenburg að vélarnar kæmust ekki aftur í loftið fyrr en á næsta ári. 

Verði það niðurstaðan að tilkynnt verði um framleiðslustöðvun verður það að öllum líkindum til marks um að enn lengra sé í að 737-MAX vélarnar fái flughæfnisskírteini en áður var talið, að því er segir í frétt AFP.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert