Brexit-samningur samþykktur

Frá atkvæðagreiðslunni í dag.
Frá atkvæðagreiðslunni í dag. AFP

Neðri málstofa breska þingsins samþykkti í dag áætlanir Boris Johnsons forsætisráðherra um útgöngu úr Evrópusambandinu 31. janúar næstkomandi.

Brexit-samningurinn svokallaði var samþykktur með 358 atkvæðum gegn 234 og verður hann nú rýndur frekar í neðri og efri málstofum þingsins, en áætlun ríkisstjórnarinnar er að lagabreytingum sem tengjast framkvæmd útgöngusamningins verði öllum lokið fyrir áætlaða brottför úr Evrópusambandinu 31. janúar.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands í þingsal í dag.
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands í þingsal í dag. AFP

Johnson, sem leiddi Íhaldsflokkinn til kosningasigurs í síðustu viku og tryggði sér rúman meirihluta til þess að ná útgöngusamningnum í gegnum þingið, sagði í þingsal dag að samningurinn myndi gera Bretlandi mögulegt að „færast áfram“.

Stjórnarandstöðuleiðtoginn Jeremy Corbyn tók annan pól í hæðina. Fyrir atkvæðagreiðsluna hvatti hann þingmenn Verkamannaflokksins til þess að kjósa gegn samningnum og sagði að til væri „betri og sanngjarnari“ leið til þess að yfirgefa Evrópusambandið.

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert