Vægi Evrópusambandsins fer minnkandi

AFP

Hlutdeild ríkja Evrópusambandsins í hagvexti á heimsvísu mun halda áfram að dragast saman á komandi áratugum samkvæmt niðurstöðum greiningar rannsóknarmiðstöðvar í alþjóðafræðum við Denver-háskóla í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram á fréttavefnum Politico.eu. Þar segir að núverandi ríki Evrópusambandsins, að Bretlandi meðtöldu sem er á leið úr sambandinu, hafi árið 1960 staðið samanlagt fyrir meira en þriðjungi hagvaxtar í heiminum. Hlutfallið er rúm 22% í dag en gert er ráð fyrir að árið 2100 verði það einungis 10% samkvæmt fréttinni.

Mestur vöxturinn verður í Asíu og Afríku, einkum vegna mikillar fólksfjölgunar. Á sama tíma er aðeins gert ráð fyrir að fólksfjölgun verði í átta ríkjum Evrópusambandsins á næstu átta árum. Annars staðar verði fólksfækkun og í sumum tilfellum gríðarlega mikil. Þannig er því spáð að íbúum Búlgaríu, Króatíu og Litháen fækki um helming.

Þá segir að Evrópa verði eina heimsálfan þar sem fólki muni fækka á komandi áratugum. Íbúar þeirra ríkja sem nú mynda Evrópusambandið voru 13% af íbúum heimsins árið 1960 en verða að líkindum aðeins 7% á þessu ári og 4% árið 2100. Kína verður stærsta hagkerfi heimsins á næstu tíu árum og Indland í lok aldarinnar.

Gert er ráð fyrir að Bretland sé hluti af Evrópusambandinu í greiningunni en til stendur að Bretar yfirgefi sambandið formlega í lok þessa mánaðar. Gera má því ráð fyrir að hlutdeild Evrópusambandsins í hagvexti verði enn minni en fram kemur í spánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert