Viss um að Íranar muni ráðast á bandaríska hermenn

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varar Íran við því að gera, …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varar Íran við því að gera, það sem hann segir, stór mistök. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, telur allar líkur á því að íranskar hersveitir muni gera árás á hersveitir Bandaríkjanna til að hefna fyrir morðið á Qasem Soleimani sem var drepinn aðfaranótt föstudags síðastliðins.

„Við teljum að það séu sterkar líkur á því að Íran geri mistök og ákveði að ráðast á hersveitir okkar í Írak eða hermenn okkar í norðausturhluta Sýrlands,“ sagði ráðherrann við bandaríska fjölmiðilinn Fox News í gærkvöldi er hann var spurður út ummæli æðsta klerks Írans sem hefur heitið grimmilegum hefndum vegna loftárásarinnar sem grandaði Soleimani og fleirum.

„Það yrðu mikil mistök af hálfu Írans,“ bætti Pompeo við.

Um 60 þúsund bandarískir hermenn eru í Mið-Austurlöndum, þar á meðal um 5.200 í Írak. Þrjú þúsund til viðbótar voru sendir þangað í kjölfar þess að Soleimani var drepinn.

Pompeo sagði Bandaríkin vera búin undir ýmiskonar viðbrögð frá Íran, þar á meðal tölvuárásir.

Íraksþing vill erlenda hermenn úr landi

Hassan Nasrallah, hershöfðingi Hezbolla-samtakanna í Líbanon, sem studdur er af írönskum stjórnvöldum, tók í gær undir orð æðsta klerks Írans og lofaði hefndum með því að ráðast að Bandaríkjamönnum.

„Bandaríski herinn myrti þá og þeir munu borga fyrir það,“ sagði Nasrallah.

Löggjafarþingið í Írak samþykkti í þingsályktun í gær um að þessi yrði krafist að erlendir hermenn yfirgæfu landið. Bandarískar hersveitir hafa verið þar síðan árið 2014 þegar stjórnvöld þar í landi buðu þeim að koma þangað og aðstoða í stríðinu við Íslamska ríkið.

Mike Pompeo segist þó fullviss um að írakar vilji hafa bandarískar hersveitir áfram í landinu til að aðstoða stjórnvöld í baráttunni við hryðjuverkasamtök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert