25 manns og milljónir dýra hafa týnt lífi

Allt er gert til þess að slökkva eldana sem loga í Ástralíu en aðstæður hafa heldur skánað þar í gær og í dag. Von er á að hitinn blossi upp að nýju síðar í vikunni. Tæplega tvö þúsund hús hafa orðið eldinum að bráð og að minnsta kosti 25 manns og milljónir dýra hafa týnt lífi í eldunum sem hafa logað frá því í september.

AFP

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Nýja Suður-Wales hafa tæplega 1.600 heimili orðið eldunum að bráð og tæplega 700 skemmst. Um 200 hús eru ónýt í Victoria og yfir 100 annars staðar í Ástralíu. Tryggingarfélög áætla að tjónið nemi yfir 700 milljónum Ástralíudala sem svarar til 60 milljarða króna. Fullvíst er talið að fjárhæðin eigi eftir að margfaldast áður en yfir lýkur. 

Um 500 Íslendingar búsettir í Ástralíu

Inga Árnadóttir, kjörræðismaður Íslands í landinu, segir í samtali við Morgunblaðið að óvíst sé að hægt verði að ráða niðurlögum eldanna næstu mánuðina. „Þetta er ógnvænlegt ástand,“ segir hún. Gífurlegt tjón hefur orðið og margir látist.

Inga segir að New South Wales virðist hafa farið verst út úr eldunum fram að þessu, en það logi einnig núna í Suður-Ástralíu og Viktoríu. Hún segir að Íslendingar séu á öllum þessum svæðum. Um 500 íslenskir ríkisborgarar eru búsettir í Ástralíu, dreifðir um landið en stór hluti býr í Vestur-Ástralíu í og í kringum borgina Perth og einnig í Melbourne og Sydney.

AFP

Í gær kólnaði heldur í veðri og það rigndi á einhverjum stöðum í gær og í dag þannig að úrvinda sjálfboðaliðar eru að störfum, bæði við hreinsunar- og slökkvistörf. Á föstudag er von á því að hitinn hækki umtalsvert að nýju og það hvessi.

Að sögn slökkviliðsstjóra í dreifbýli NSW er unnið að því að takmarka útbreiðslu eldanna og undirbúa jarðveginn fyrir versnandi veðurskilyrði á föstudag. Hætta er talin á því að eldar í NSW og nágrannaríkinu Victoria nái saman þegar hvessir sem þýðir að stjórnlaust bál blossi upp. Þrátt fyrir rigningu í gær var hún svo lítil að ekki dugði til að slökkva neina stóra elda. 

AFP

Alls eru átta milljónir hektara lands brunnir sem svarar til stærðar Írlands svo dæmi séu tekin. Reykur frá eldunum hefur greinst í yfir 12 þúsund km fjarlægð í Chile og Argentínu samkvæmt upplýsingum frá veðurstofum í ríkjunum tveimur í S-Ameríku. 

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert