Taal gæti spúð ösku í margar vikur

Fiskveiðar stundaðar undir öskumekkinum frá Taal. Tugþúsundir íbúa hafa yfirgefið …
Fiskveiðar stundaðar undir öskumekkinum frá Taal. Tugþúsundir íbúa hafa yfirgefið heimili sín og gista nú í neyðarskýlum yfirvalda. AFP

Eldfjallið Taal á Filippseyjum gæti spúð hrauni og ösku í margar vikur, samkvæmt yfirvöldum þar í landi. Tugir þúsunda íbúa í grenndinni hafa lagt á flótta frá heimilum sínum af ótta við öflugt sprengigos í fjallinu, sem rumskaði af krafti á sunnudag.

Taal er sunnan við Manilla, höfuðborg Filippseyja. Margir sem lögðu á flótta undan eldshræringunum fóru í miklum flýti af svæðinu.

„Við skildum allt eftir nema fötin sem við stöndum í,“ segir sjómaðurinn Robert Cadiz í samtali við AFP-fréttastofuna, en hann er einn af yfir 30 þúsund íbúum sem nú hafast við í neyðarskýlum og vita ekkert hvenær þeir komast heim á ný. „Við vorum skelfingu lostin,“ segir hann um sig og sína.

Öskufallið frá Taal hefur litað borgina Tagaytay, sunnan við Manilla, …
Öskufallið frá Taal hefur litað borgina Tagaytay, sunnan við Manilla, gráa. AFP

Gerald Aseoche er þrítugur fjögurra barna faðir, sem hélt af stað frá hættusvæðinu án þess að taka mikið með sér, nema jú auðvitað börnin. Í samtali við AFP segist hann vonast til þess að eldhræringarnar standi ekki lengi yfir, þar sem hann missi vinnu sína sem málari ef hann komist ekki skjótt aftur til starfa.

Enn hætta á sprengigosi

Taal er eitt virkasta eldfjall Filippseyja og gaus síðast árið 1977, en þar áður hafði fjallið gosið árið 1965. Þá létust 200 manns í umbrotunum.

Renato Solidum, forstöðumaður jarðfræðistofnunar landsins, segir að mögulega séu mánuðir þar til eldfjallið leggist í dvala á ný. Enn er hætta á að sprengigos verði – og sú viðvörun gæti varað í margar vikur. Á meðan svo er er ekki óhætt fyrir þá sem ruku að heiman á sunnudag að snúa til baka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert