Sagnfræðingar segja staðhæfingar Pútíns fáránlegar

Sagnfræðingar segja fullyrðingar, sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lét falla …
Sagnfræðingar segja fullyrðingar, sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lét falla á minningarathöfn um helförina í vikunni, „rangar“ og „fáránlegar“. AFP

Sagnfræðingar segja að fullyrðingar sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lét falla á minningarathöfn um helförina í vikunni „rangar“ og „fáránlegar“. Pútín sagði þar að 40% gyðinganna sem létu lífið í helförinni hefðu verið sovéskir ríkisborgarar. The Times of Israel greinir frá þessu.

Minningarathöfnin var haldin í tilefni af því að 75 ár eru síðan gyðingar voru frelsaðir úr útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Athöfnin fór fram  í Jerúsalem í Ísrael og var ákvörðun skipuleggjenda sem laut að því að gefa Pútín orðið harðlega gagnrýnd áður en hann flutti erindi sitt. 

„Þessi staðhæfing hans er sannarlega röng,“ sagði Jan Grabowski, sagnfræðingur í háskólanum í Ottawa, í samtali við ísraelska miðla. 

Jelena Subotic, prófessor í stjórnmálafræði í ríkisháskóla Georgíu og höfundur bókarinnar Yellow Star, Red Star: Holocaust Remembrance After Communism, sagði ummæli Pútíns „fáránleg og ekki byggð á sagnfræðilegum staðreyndum“.

Andrzej Duda, forseti Póllands.
Andrzej Duda, forseti Póllands. AFP

Hlutfallið í raun 16%

Subotic bætti því við að sagnfræðingar væru almennt sammála um að um ein milljón þeirra sex milljóna gyðinga sem drepnir hefðu verið í helförinni hefðu verið sovéskir ríkisborgarar. Það þýðir að hlutfall þeirra var í raun um 16% en ekki 40%.

Á síðustu mánuðum hefur Pútín átt í hörðum deilum við Andrzej Duda, forseta Póllands, vegna helfararinnar. Duda neitaði að mæta á minningarathöfnina í Jerúsalem vegna þess að hann fékk ekki að  halda ræðu. 

Auschwitz-útrýmingarbúðirnar voru í Póllandi og hefur Pútín sakað Pólland um að hafa unnið með Þjóðverjum fyrir seinni heimsstyrjöldina en Duda hefur sakað Rússa um að hafa gert lítið úr eigin þætti í innrás Sovétmanna í Pólland árið 1939 og samvinnu þeirra við nasista ári síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert