Ráðstöfun Bandaríkjanna „óvingjarnleg“

Grímuklæddir farþegar á aðallestarstöðinni í Peking.
Grímuklæddir farþegar á aðallestarstöðinni í Peking. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa gagnrýnt ákvörðun Bandaríkjamanna um að meina erlendum ríkisborgurum sem hafa heimsótt Kína síðustu tvær vikur, að koma til landsins vegna kórónaveirunnar sem þar geisar. Hafa Kínverjar lýst ákvörðuninni, sem tekur gildi á morgun, sem „óvingjarnlegri“. „Þetta er sannarlega ekki vottur um góðvild,“ segir Hua Chunying, talskona kínverska utanríkisráðuneytisins.

259, hið minnsta, eru látnir af völdum veirunnar og um 12.000 smitaðir. Yfirvöld í borginni Wuhan, þar sem veiran kom fyrst upp, hafa viðurkennt að hafa brugðist of hægt við. „Ef gripið hefði verið til skýrra eftirlitsráðstafana fyrr, væri niðurstaðan betri en nú er,“ sagði Ma Guoqiang, yfirmaður Kommúnistaflokksins í Wuhan. Yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að greina ekki frá veirunni fyrr en í lok desember þrátt fyrir að hafa vitað um hana nokkrum vikum áður.

Síðan þá hefur verið gripið til umfangsmikilla aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar. Skólahaldi hefur víða verið aflýst og almenningssamgöngum og verslunum lokað. Apple tilkynnti í dag að allar verslanir fyrirtækisins í Kína yrðu lokaðar til 9. febrúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert