Tómar götur á háannatíma í Peking

„Yfirleitt er umferðin svo stöppuð að maður kemst varla úr …
„Yfirleitt er umferðin svo stöppuð að maður kemst varla úr spori,“ segir Gunnar Snorri í samtali við mbl.is. Ljósmynd/Aðsend

„Svona lítur háannatími í umferð eða ‚Rush Hour‘ út í Beijing þessa dagana,“ skrifar Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Kína, á Facebook þar sem hann deilir myndum af götum Peking, höfuðborgar Kína, á leið hans í vinnuna í morgun.

„Yfirleitt er umferðin svo stöppuð að maður kemst varla úr spori,“ segir Gunnar Snorri í samtali við mbl.is. Í síðustu viku bárust tilmæli frá yfirvöldum um að fólk héldi sig að mestu heima og væri ekki á ferðinni að óþörfu.

Gunnar Snorri Gunnarsson hefur verið sendiherra Íslands í Peking í …
Gunnar Snorri Gunnarsson hefur verið sendiherra Íslands í Peking í 14 ár. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Hér í Kína, ef það koma tilmæli frá stjórnvöldum, þá er þeim hlýtt. Það er mikill agi yfir öllu,“ segir Gunnar Snorri, en hann fundaði með kollegum sínum frá Noregi og Eistlandi um stöðuna á einu af þeim fáu veitingahúsum sem enn eru opin í Peking í dag. „Við erum ekki alveg svona uppteknir af þessu.“

Móðir orðin stærðfræði-, ensku- og kínverskukennari

Gunnar Snorri segir að flestar opinberar stofnanir séu lokaðar. „Fólk sem getur reynir að vinna heima og skólar, alla vega þeir sem eru þokkalega vel útbúnir, eru í tölvusambandi við nemendur og setja þeim fyrir verkefni. Aðrir treysta á foreldrana og setja þeim fyrir. Ég talaði við eina kínverska konu sem kvartaði yfir því að vera orðin stærðfræðikennari, enskukennari og kínverskukennari, fyrir utan það að sjá um heimilið og sinna ýmsum öðrum útréttingum.“

Að sögn Gunnars Snorra standa vonir til þess að stjórnvöld aflétti ástandinu í næstu viku. „við eigum samt von á því að þetta fari að færast í eðlilegra horf með mánudeginum kemur. Við bíðum eftir því hvernig stjórnvöld bregðast við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert