Tyrkir hætta að loka landamærum til Evrópu

Sýrlendingar biðja fyrir tyrknesku hermönnunum sem týndu lífi í loftárásinni.
Sýrlendingar biðja fyrir tyrknesku hermönnunum sem týndu lífi í loftárásinni. AFP

Tyrkland mun ekki lengur loka landamærum sínum fyrir flóttamönnum sem vilja fara þaðan til Evrópu. Háttsettur embættismaður greindi fréttastofu AFP frá þessu í dag, skömmu eftir að 33 tyrkneskir hermenn voru drepnir í loftárás í Norður-Sýrlandi. 

„Við munum ekki lengur hafa dyrnar lokaðar fyrir flóttamenn sem vilja fara til Evrópu,“ sagði embættismaðurinn sem kaus að halda nafni sínu leyndu. 

Nærri 300 flóttamenn, þar á meðal sýrlenskir flóttamenn eru nú þegar komnir til Edirne héraðsins sem liggur að landamætum Grikklands, og stefna að því að komast til Evrópu. 

Annar hópur flóttamanna kom á strendur Ayvacik í Canakkale héraði í vesturhluta Tyrklands nýverið. Hópurinn miðar að því að fara til grísku eyjarinnar Lesbos með bátum. 

3,6 milljónir sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi

Í Tyrklandi hafast nú þegar við um 3,6 milljónir sýrlenskra flóttamanna en yfirvöld þar í landi óttast að fleiri komi til landsins. Þar vex andúð í garð flóttafólks, sérstaklega sýrlensks flóttafólks eftir áðurnefnda loftárás sem sýrlenskum stjórnvöldum hefur verið kennt um.

Fahrettin Altun, helsti talsmaður Receps Tayyips Erdogans, forseta Tyrklands, sakaði Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, um að stunda þjóðernishreinsanir og reyna að reka milljónir Sýrlendinga frá sýrlensku borginni Idlib. Það gerði Altun á samfélagsmiðlinum Twitter í dag.

„Þetta fólk reynir að flýja til Tyrklands og Evrópu. Í Tyrklandi eru nú þegar tæpar fjórar milljónir flóttafólks og við höfum ekki tök á að hleypa annarri milljón þeirra inn í landið. Innviðir okkar eru einfaldlega ekki til þess gerðir“, skrifaði Altun. 

Grikkland og aðrar Evrópusambandsþjóðir óttast einnig stríðan straum flóttafólks frá Sýrlandi. Árið 2015 kom þangað um milljón sýrlenskra flóttamanna áður en samkomulag náðist við Tyrki um að stjórna straumnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert