Kórónuveiran greind í öllum Bandaríkjunum

AFP

Kórónuveiran hefur nú greinst í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og 108 eru látnir úr farsóttinni. Yfirvöld í New York-borg íhuga að setja á svipað útgöngubann og San Francisco. 

Ríkisstjóri West Virginia, Jim Justice, greindi frá fyrsta kórónuveirusmitinu í ríkinu í gærkvöldi og sagði af því tilefni: „Við vissum að þetta væri að fara að gerast.“

San Francisco Oakland Bay-brúin iðar ekki lengur af lífi.
San Francisco Oakland Bay-brúin iðar ekki lengur af lífi. AFP

Yfir 6.300 hafa greinst smitaðir í Bandaríkjunum en í heiminum öllum hafa um 200 þúsund smit verið staðfest. Tæplega átta þúsund manns hafa látist úr veirunni. 

Á sama tíma og ríkisstjórn Bandaríkjanna boðar björgunaraðgerðir upp á einn billjarð Bandaríkjadala (milljón milljónir) segir fjármálaráðherra landsins, Steven Mnuchin, að ef Bandaríkjaþing samþykki ekki björgunaraðgerðirnar sé hætta á að atvinnuleysi aukist gríðarlega og fari í 20%. Sem er nánast tvöfalt meira en það var í kjölfar heimskreppunnar í kjölfar hrunsins árið 2008.

AFP

Borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, segir að innan tveggja daga muni liggja fyrir ákvörðun um hvort útgöngubann verði sett á í borginni. New York-borg sem er heimili 8,5 milljóna og sagt er að borgin sofi aldrei. Það þýðir að meirihluti borgarbúa þarf að halda sig heima með þeirri undantekningu að fá að skjótast í matvörubúð eftir nauðsynjum eða lyfjum. Fara út að ganga með gæludýr eða hreyfa sig heilsunnar vegna svo lengi sem þeir forðist að hitta aðra. 

AFP

„Þetta er gríðarlega erfið ákvörðun,“ segir de Blasio. „Við höfum aldrei verið í þessum sporum áður. Ég hef aldrei heyrt um viðlíka aðgerðir í sögu New York-borgar.“

Yfirvöld í San Francisco hafa þegar beðið íbúana, alls 6,7 milljónir talsins, um að halda sig heima nema ef brýnustu nauðsyn beri til. Bannið gildir til 7. apríl. 

Frétt BBC

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir að mögulega verði settar hömlur á ferðalög innanlands. Hann segir að hægt sé að setja útgöngubann á öll Bandaríkin. „Vonandi þurfum við þess ekki. Það er afar stórt skref að stíga.“

Trump varði á blaðamannafundi í gær ummæli sín á Twitter um „kínversku veiruna“ en bæði kínversk stjórnvöld og andstæðingar Trumps hafa gagnrýnt þau harðlega. 

„Þetta kom frá Kína,“ sagði Trump við fréttamenn í gær en hann var víða sakaður um rasisma í kjölfar færslunnar á Twitter.

Trump segir að hann hafi vitað að þetta yrði alheimsfaraldur löngu áður en það hugtak var notað um COVID-19. Þetta er ekki í samræmi við ummæli hans í síðasta mánuði en þá sagði hann að kórónaveirufaraldrinum yrði lokið á nokkrum dögum í Bandaríkjunum.

Frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert